Ráðuneytið íhugar viðbrögð við læsingu geisladiska

Verið er að kanna hvort gera þurfi laga- eða reglugerðarbreytingar vegna aukagjalds á óbrenndum diskum eftir að plötufyrirækið Skífan ákvað að læsa geisladiskum, sem það gefur út, svo að ekki verði hægt að spila og afrita þá í tölvum en umrætt aukagjald var lagt á til að bæta rétthöfum upp tekjutap vegna ólöglegrar afritunar. Þá hefur verið bent á að umrædd læsing á diskum komi í veg fyrir að menn geti nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að afrita höfundarverk til einkanota.

„Þessi mál eru til athugunar í ráðuneytinu," segir Guðbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarkona menntamálaráðherra í samtali við mbl.is. „Það liggur ekki ljóst fyrir hvort þetta kalli á laga- eða reglugerðarbreytingu en við erum að kanna þessi mál." Guðbjörg segir ekki ljóst hversu langan tíma slík athugun muni taka. Í tilkynningu sem eigendur Skífunnar, fulltrúar Samtaka flytjenda og hljómplötuframleiðenda og Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar sendu frá sér vegna málsins kemur fram að ólögleg fjölföldun hafi aukist mjög á undanförnum árum og að umrædd læsing verði sett á til að stemma stigu við henni. Þá segir að Skífan hyggist bjóða þeim sem vilji hlusta á tónlist í tölvum upp á að sækja sér tónlist yfir Netið, þannig að nettengdir tölvunotendur sem hafi keypt sér eintak af varinni plötu geti sótt innihaldið með því að nota lykilnúmer úr bæklingi plötunnar. Tónlistin verður þá eingöngu aðgengileg úr þeirri tölvu sem notuð er við að sækja hana. Aukagjald á brennanlega diska með minna en 2 Gb geymslurými er 17 kr. og á geisladiska með meira en 2 Gb geymslurými er 50 kr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert