Ríkisábyrgð til Íslenskrar erfðagreiningar samþykkt

Samþykkt var á Alþingi í dag að heimila fjármálaráðherra að …

Samþykkt var á Alþingi í dag að heimila fjármálaráðherra að veita ÍE ríkisábyrgð vegna lántöku.
mbl.is

Alþingi samþykkti í dag að heimila fjármálaráðherra að veita Íslenskri erfðagreiningu ríkisábyrgð á allt að 200 milljóna dala lán til fjármögnunar nýrri starfsemi hér á landi. Frumvarp þessa efnis var samþykkt með 27 atkvæðum gegn 13 en 12 greiddu ekki atkvæði. 11 voru fjarstaddir. Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokks greiddi atkvæði gegn frumvarpinu en Jónína Bjartmarz og Magnús Stefánsson þingmenn Framsóknarflokks og Þorgerður K. Gunnarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Samkvæmt frumvarpinu er fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, heimilt, í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþróunar hér á landi, að veita einfalda ábyrgð vegna útgáfu móður félags Íslenskrar erfðagreiningar, deCODE Genetics Inc., á skuldabréfum að fjárhæð allt að 200 milljónir dala til fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. á sviði lyfjaþróunar. Fjármálaráðherra veitir ábyrgðina að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann metur gild.Allir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Frjálslynda flokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpinu sem og hluti þingmanna Samfylkingarinanr en aðrir þingmenn flokksins sátu hjá. Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist vilja við akvæðagreiðsluna mótmæla ríkisábyrgð til eins fyrirtækis í miklum áhætturekstri sem líkja mætti við fjárhættuspil, þar sem hver fjögurra manna fjölskylda væri skyldug til þess að hætta tæpum 300 þúsund krónum. Hún sagði að allar líkur væru á að frumvarpið gangi gegn þrígreiningu ríkisvaldsins, stjórnarskránni og samkeppnislögum.

„Ríkisbókhald hefur líka staðfest í dag að Íslensk erfðagreining skuldi ríkissjóði tæpar 100 milljónir króna, sem eru í vanskilum, en það gengur gegn ríkisábyrgðarlögum að veita slíku fyrirtæki ríkisábyrgð, en þeim lögum hefur verið vikið til hliðar," sagði Jóhanna og kvaðst hafna því að ríkisstjórnin tefldi eina ferðina enn fram sérhagsmunum gegn almannahagsmunum."

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ríkisábyrgð til eins fyrirtækis í einum mesta áhætturekstri sem til er, lyfjaþróun, gangi þvert á þá stefnu ríkisstjórnarinnar að hverfa frá sértækum aðgerðum og skapa atvinnurekstri almenn skilyrði, sem gefið hefði góða raun. „Þessi ríkisábyrgð gengur þvert á þá stefnu í fjárfestingum, að menn eigi að gera það sem þeir kunna best og að áhætturekstur eigi að fjármagna með áhættufé," sagði Pétur og greiddi atkvæði gegn frumvarpinu.

Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslyndaflokksins, sagði að með samþykkt frumvarpsins væri verið að smíða stærsta axarskaft í sögu Alþingis. „Almenningur hlýtur að vera uggandi um Íslandshag í höndum manna, sem þannig deila og drottna. Þetta mál verður ekkert látið liggja í láginni, því síður í þagnargildi, enda mun það vafalaust minna á sig óþyrmilega áður en líður," sagði Sverrir og greiddi gegn frumvarpinu.

Vilhjálmur Egilsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði styðja frumvarpið og kvaðst gera sér vonir um að hægt yrði að byggja upp mikla þekkingu á einu sviði og gera það að verkum að fjöldi manns gæti haslað sér völl í nýrri atvinnugrein. „Það er eftir miklu að sækjast fyrir land og þjóð. Vissulega er verið að taka áhætttu, en ég tel að hún sé viðunandi," sagði Vilhjálmur.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri-grænna, sagði að með frumvarpinu væri verið að veita fjármálaráðherra heimild til þess að gangast í 20 milljarða króna ábyrgð fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda. Hann sagði að lögum um ríkisábyrgð væri vikið til hliðar en í staðinn kæmi setning um að fjármálaráðherra veitti ábyrgðina, að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann metur gild. „Þessi setning kemur í stað laga um ríkisábyrgð, frá 1997," sagði Ögmundur og kveðst greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert