Tvíþekja af gerðinni Pitts Special brotlenti við Akureyrarflugvöll skömmu fyrir hádegi í dag. Flugmaðurinn var einn um borð og gekk hann óstuddur frá borði. Þegar flugvélin kom inn til lendingar tilkynnti flugmaðurinn kl. 11:32 að drepist hefði á hreyfli flugvélarinnar. Skömmu síðar kom hún niður um 100 metrum sunnan við flugbraut og hafnaði á hvolfi við skurðsbakka
Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn er flugvélin töluvert mikið skemmd. Flugmaðurinn hélt af stað í flugið klukkan 11:02 og hafði áætlað að lenda aftur á flugvellinum hálftíma síðar, að því er segir í tilkynningu frá Flugmálastjórn. Rannsóknarnefnd flugslysa fer með rannsókn málsins.