Ringulreið í Montevideo í Úrúgvæ

Versnandi efnahagur í Úrúgvæ hefur orðið til þess að launþegar hafa lagt niður störf tímabundið í mótmælaskyni. Þá kom til átaka í höfuðborginni Montevideo í nótt, en þar fleygði fólk grjóti og rændi verslanir og veitingastaði. Ástæða ólátanna má rekja til þess að stjórnvöld í landinu ákváðu fyrir tveimur dögum að láta loka bönkum til þess að koma í veg fyrir að fólk gæti dregið fé sitt út af bankareikningum, að sögn fréttavefjar BBC.

Hins vegar var hægt að taka út fé úr hraðbönkum á miðvikudag þar sem fólk þurfti að nálgast launin sín. Þá hafa launþegar krafist hærri launa. Einungis fólk í heilbrigðisstéttum, kennarar og bankastarfsmenn taka ekki þátt í allsherjar verkfalli í Úrúgvæ. 42 launþegasamtök samþykktu að hefja verkfall. Landið er skuldum vafið, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) hefur í hyggju að veita Úrúgvæ ný lán. Fjölmiðlar í landinu halda því fram að lánið nemi allt að því 127 milljörðum ísl. króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka