Áhrifa heldur áfram að gæta í skemmtanaiðnaði Bandaríkjanna vegna hryðjuverkaárásanna í síðastliðinni viku. Ýmsar þáttaraðir munu endurskrifa þætti sem hafa þegar verið teknir upp og tónlistarmenn endurskoða nú allt það efni sem þeir gefa út.
Ákveðið hefur verið að breyta nokkrum atriðum í nýjustu þáttaröðinni um Vini. Eitt þeirra atriða sem ekki þykir viðeigandi nú sýnir Monicu og Chandler bíða á flugvelli eftir flugi í brúðkaupsferð sína og Monica hneykslast einhver býsn á seinkun sem verður á flugi þeirra. "Fyrir tveimur vikum hefði þetta þótt fyndið, núna er það engan veginn viðeigandi," sagði David Crane, framleiðandi þáttanna. Aaron Sorkin, höfundur West Wing-þáttanna, hefur farið fram á það að NBC-sjónvarpsstöðin seinki sýningu nýjustu þáttaraðarinnar. Sorkin er sagður áhyggjufullur yfir því hvernig áhorfendur muni bregðast við því fjaðrafoki sem einkennir starfsemina í Hvíta húsinu í þáttunum. Það eru ekki bara sjónvarpsþættir sem taka efni sitt til endurskoðunar. Hljómsveitin The Strokes hefur seinkað útkomu á væntanlegri breiðskífu sinni þar sem þeir hyggjast breyta laginu New York City Cops, sem þykir heldur óvægið á lögregluna í New York, í ljósi atburðanna þar í borg. Íslandsvinirnir í The Cardigans hafa afturkallað sitt nýjasta tónlistarmyndband sem þegar var komið í dreifingu um allan heim. Í myndbandinu flýgur flugvél lágflugi yfir stórborg og á jörðinni sést í útlínur látinnar manneskju.