Félagar í Afli ganga í Náttúruverndarsamtök Austurlands

Félögum í Náttúruverndarsamtökum Austurlands, NAUST, hefur fjölgað um 60 undanfarna daga og eru flestir nýju félaganna í samtökunum "Afl fyrir Austurland", sem berst fyrir virkjunarframkvæmdum á svæðinu. Aðalfundur NAUST verður haldinn á morgun. Einar Rafn Haraldsson, formaður stjórnar Afls fyrir Austurland, segir að alls ekki sé um tilraun til yfirtöku á Náttúruverndarsamtökunum að ræða.

„Þessi samtök hafa ágæt markmið og lög. Meðal annars segir í lögunum að þau ætli að stuðla að skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Einnig segir að þau ætli að hafa vinsamleg samskipti við alla þá aðila sem kunna að hafa hagsmuna að gæta sem eru andstæðir náttúruverndarsjónarmiðum," segir Einar. Einar segir að framtakið sé einstaklinganna, ekki samtakanna. „Ég veit ekki hversu margir þessara nýju félaga eru í samtökunum okkar, en hafa ber í huga að félagsmenn Afls eru yfir 2.500 talsins," segir hann. Að sögn Einars Rafns byrjaði málið þannig að hann hafi fengið lög NAUST í hendurnar fyrir fáeinum vikum. „Ég sá að þetta voru hin ágætustu samtök og það væri um að gera að spjalla við meðlimi þeirra. Ég sagði einhverjum frá þessu og ég held að þessi skriða hafi fylgt í kjölfar þess," segir hann. Hvorki stjórnarkjör né lagabreytingar eru á dagskrá fundarins á morgun. „Menn vilja bara ræða efnislega um málið," segir Einar Rafn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert