Lítil myntsvæði berskjölduð fyrir sveiflum

Vil­mund­ur Jós­efs­son, formaður Sam­taka iðnaðar­ins, hóf dag­skrá ráðstefn­unn­ar á að kynna niður­stöður nýrr­ar skoðana­könn­un­ar, sem Gallup gerði fyr­ir sam­tök­in. Voru helztu niður­stöður þær, að helm­ing­ur (49,9%) aðspurðra Íslend­inga svöruðu því ját­andi að þeir væru fylgj­andi aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu, 37% sögðust and­víg og 13,1% tók ekki af­stöðu. Úrtakið var 1200 manna slembiúr­tak úr þjóðskrá og var svar­hlut­fallið 68,3%.

Vakti Vil­mund­ur at­hygli á því, að mun­ur­inn á fjölda fylgj­enda og and­stæðinga ESB-aðild­ar hefði vaxið um tæp 7 pró­sentu­stig frá síðustu sam­bæri­legri könn­un, sem gerð var í fe­brú­ar sl.

Er spurt var um af­stöðu fólks til þess hvort taka bæri upp evr­una á Íslandi í stað krón­unn­ar var niðurstaðan ekki eins af­ger­andi. 44% sögðust fylgj­andi því að fá evr­una, 45% ekki og 11% sátu hjá. Fé­lags­menn SI voru líka spurðir sömu spurn­inga og kom í ljós tölu­verður mun­ur á af­stöðu þeirra og al­menn­ings. 57,8% fé­lags­manna vildu að sótt yrði um aðild að ESB og 67% vildu að evr­an kæmi í stað krón­unn­ar. 30% fé­lags­manna sögðust and­víg­ir bæði ESB-aðild­ar­um­sókn og upp­töku evr­unn­ar.

Stefna ís­lenzkra stjórn­valda á skjön við al­menn­ings­vilja

Þótt aðild­in að Evr­ópska efna­hags­svæðinu hafi gagnazt Íslend­ing­um vel dugi hún ekki leng­ur til. "Þrátt fyr­ir ágæti EES-samn­ings­ins höf­um við sann­færzt æ bet­ur um það að hann dug­ir ekki til," sagði Vil­mund­ur. "Rök­rétt fram­hald er aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Því miður hafa flest­ir ís­lenzk­ir stjórn­mála­menn hingað til sagt að aðild sé ekki tíma­bær, það verði að bíða og sjá. Við telj­um hins veg­ar að nóg sé komið af biðinni og hún sé hrein­lega til tjóns. Þá erum við þeirr­ar skoðunar að stjórn­völd haldi fram ann­arri stefnu í Evr­ópu­mál­um en meiri­hluti lands­manna aðhyll­ist og er það um­hugs­un­ar­efni."

Vakti Vil­mund­ur at­hygli á því að í niður­stöðum skoðana­könn­un­ar­inn­ar kem­ur fram að kon­ur, yngra fólk, tekju­hærri ein­stak­ling­ar og kjós­end­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins séu lík­legri til að vera fylgj­andi aðild en aðrir. "Þess­ar niður­stöður eru merki­leg­ar ekki sízt í ljósi þess að stjórn­völd hafa hvað eft­ir annað lýst and­stöðu sinni við aðild og talið hana glapræði fyr­ir Ísland. Sam­kvæmt könn­un­inni eru lands­menn ekki sam­mála því," sagði Vil­mund­ur.

Viðkvæmni smárra og op­inna hag­kerfa

Í fram­sögu­er­ind­um Sví­ans Jac­obs­sons og Finn­ans Åker­holms var sam­eig­in­leg sú áherzla sem þeir lögðu á veik­leika lít­illa, op­inna þjóðhag­kerfa - bæði Svíþjóð og Finn­land, sem þó eru á bil­inu 15-30 sinn­um stærri hag­kerfi en hið ís­lenzka, hefðu rekið sig á hve lít­il myntsvæði væru ber­skjölduð fyr­ir al­var­leg­um sveifl­um eft­ir að höml­ur á fjár­magns­flutn­inga milli landa voru af­numd­ar. Finn­ar og Sví­ar gengu í ESB í árs­byrj­un 1995, en báðar þjóðir gengu í gegn­um erfiða efna­hags- og fjár­málakreppu á fyrstu árum tí­unda ára­tug­ar­ins.

Åker­holm, sem sjálf­ur átti virk­an þátt í und­ir­bún­ingi ESB- og EMU-aðild­ar Finn­lands, sagði aðild­ina tví­mæla­laust hafa hjálpað til við að koma aft­ur á stöðug­leika í finnsku efna­hags­lífi, en mik­il­væg­ust hefði þó verið sú "til­tekt í eig­in ranni" sem krepp­an hefði rekið Finna út í að gera, þótt þær aðgerðir hafi að mörgu leyti verið sárs­auka­full­ar.

Sagði Åker­holm finnskt efna­hags­líf vera með EMU-aðild­inni verndað fyr­ir ytri áföll­um vegna geng­is­sveiflna. Fyr­ir lítið en opið hag­kerfi sem ekki endi­lega fylg­ir sömu hagsveiflu og stóru lönd­in á evru­svæðinu væri það vissu­lega nokk­ur fórn að stjórn­un pen­inga­mála sé nú í hönd­um Seðlabanka Evr­ópu í stað heima­manna en eins og Finn­ar hefðu spilað úr sinni stöðu hefði þetta farið vel, a.m.k. fram til þessa. Stjórn­völd aðild­ar­ríkja EMU yrðu að læra að sam­hæfa aðgerðir þegar harðnaði á daln­um á evru­svæðinu í heild. Agi í stjórn rík­is­fjár­mála væri þar lyk­il­atriði. Åker­holm rakti sem at­hygl­is­vert dæmi um viðkvæmni hag­kerf­is eins og þess finnska, að á ár­un­um fyr­ir ESB-inn­göng­una, þegar finnskt efna­hags­líf var að klóra sig upp úr krepp­unni, hefðu 60% af viðskipt­um með hluta­bréf í finnsku kaup­höll­inni verið með bréf Nokia. Fyr­ir­tækið væri nú að 85% í eigu út­lend­inga. Þessi viðskipti hefðu dregið mikla er­lenda fjár­fest­ingu inn í finnskt efna­hags­líf þegar ein­mitt var mest þörf á henni og taldi Åker­holm þetta eitt hafa bjargað gengi finnska marks­ins frá því að falla eins illi­lega og sænska krón­an og fleiri gjald­miðlar um þetta leyti.

Ópera frek­ar en króna?

Jac­obs­son gerði einnig að um­tals­efni þá staðreynd, að einörðustu efa­semd­ar­menn­irn­ir um þátt­tök­una í ESB og EMU væru í Svíþjóð lengst til vinstri í stjórn­mál­um, en í Bretlandi - þar sem stjórn­völd fylgdu einnig "bíðum og sjá­um"-stefnu í evru-mál­inu - væru þeir lengst til hægri.

Gra­ham Bis­hop spáði því að brátt komi að því að hið háa gengi sterl­ings­punds­ins gagn­vart evr­unni fái ekki staðizt leng­ur, og í kjöl­far þess óró­leika sem þetta óhjá­kvæmi­lega geng­is­fall muni valda muni rík­is­stjórn Verka­manna­flokks­ins sæta lagi og fá inn­göngu í EMU samþykkta í þjóðar­at­kvæðagreiðslu.

Gengi norsku krón­unn­ar hef­ur hald­ist mjög stöðugt

Í vor hafi seðlabank­inn í Nor­egi hins veg­ar, líkt og sá ís­lenski, sett sér verðbólgu­mark­mið, þ.e. að verðbólg­an skuli vera 2,5% með eins pró­sents vik­mörk­um. Öfugt við það sem gerzt hafi hér á landi hafi gengi norsku krón­unn­ar hald­izt stöðugt en lík­legt sé að gengi henn­ar muni styrkj­ast sam­fara stækk­andi ol­íu­sjóði.

Þrír val­kost­ir

"Gall­inn við verðbólgu­mark­mið er að hætta er á of mikl­um geng­is­sveifl­um, þannig gæti til dæm­is breyt­ing á út­hlutuðum kvót­um á Íslandi eða verðbreyt­ing­ar fyr­ir þorsk leitt til óeðli­lega mik­illa sveiflna á gengi ís­lensku krón­unn­ar," seg­ir Isach­sen. "Á móti kem­ur aukið sjálf­stæði seðlabank­ans í vaxta­mál­um og hann get­ur notað stýri­vext­ina til þess að tryggja stöðug­leika í hag­kerf­inu. Þess ber þó að geta í þessu sam­bandi að óskyn­sam­leg vaxta­stefna get­ur grafið und­an stöðug­leika."

Isach­sen bend­ir á að miklu skipti að stefna seðlabank­ans við verðbólgu­mark­mið sé í senn ábyrg og gagn­sæ og menn þurfi einnig að spyrja sig að því hvort nauðsyn­legt sé að bæta þekk­ingu og kunn­áttu inn­an ís­lenska seðlabank­ans við breytta pen­inga­mála­stefnu.

Hag­stjórn­ar­tæk­in önn­ur

Hvað ut­an­rík­is­viðskipt­in snert­ir yrði þá að ná niður kostnaði og verðlagi til þess að bæta sam­keppn­is­stöðuna og það gæti táknað lækk­un nafn­launa. Hvað inn­an­lands­eft­ir­spurn­ina snert­ir yrði ríkið að lækka skatta eða auka út­gjöld­in til þess að ýta við eft­ir­spurn­inni. Og Isach­sen held­ur áfram: "Í mín­um huga vakn­ar sú spurn­ing hvort efna­hags­stjórn á Íslandi muni ekki í aukn­um mæli bein­ast að sjálf­um raun­stærðunum í hag­kerf­inu, sem allt velt­ur á, þegar bæði vext­ir og gengi eru gefn­ar stærðir. Þá má og nefna að lík­legt er að sam­keppni verði harðari þegar öll verð eru gef­in í evr­um en það mun aft­ur tryggja hag­kvæm­ari nýt­ingu auðlind­anna."

Isach­sen seg­ir aðild Norðmanna að ESB ekki vera til umræðu nú, aðild hafi tvisvar sinn­um verið felld í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. "Það kann að vera að ESB-aðild Íslands þurfi til að Norðmenn láti loks af henni verða."

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert