Margrét segir eðlilegt að sækjast eftir embætti varaformanns

Margrét Sverrisdóttir.
Margrét Sverrisdóttir.

Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld, að svo kynni að fara að hún muni sækjast eftir embætti formanns flokksins á landsfundi sem haldinn verður í lok janúar en verði ekki af því telji hún eðlilegt, að sækjast eftir embætti varaformanns.

Margréti var í síðustu viku sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri þingflokks Frjálslynda flokksins og sagði hún þá við Morgunblaðið, að hún væri ekki í vafa um að uppsögnin stafaði af því að hún hafi mótmælt rasískum hugmyndum Jóns Magnússonar. Því hefur Jón neitað.

Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld var vitnað í tölvubréf, sem Jón sendi þeim, sem gengu með honum nýlega í Frjálslynda flokkinn og áður voru í Nýju afli. Í tölvubréfinu, sem sent var 19. nóvember, segir Jón, að Margrét starfi gegn hagsmunum Frjálslynda flokksins og að það væri búið að reka hvern einasta framkvæmdastjóra sem hagi sér eins og hún hafi gert.

Boðar Jón í tölvubréfinu til fundar daginn eftir og segir að tilefnið sé m.a. viðbrögð Margrétar við málflutningi sínum í innflytjendamálum, en Margrét sagði í Fréttablaðinu 17. nóvember, að henni þyki Jón leggja of ríka áherslu á þjóðernishyggju. Þá er haft eftir Margréti að verði Jón kjörinn til trúnaðarstarfa muni hún íhuga alvarlega að segja sig úr flokknum. Í tölvubréfinu segir Jón m.a. að sér sé illa vært í þessum félagsskap, að því er kom fram í fréttum Sjónvarpsins.

Margét sagði í Kastljósinu í kvöld, að þegar verið var að undirbúa að Nýtt afl gengi til liðs við Frjálslynda flokksins hefði að hennar mati orðið trúnaðarbrestur á milli hennar og Guðjóns Arnar Kristjánssonar, formanns flokksins, þar sem talað hefði verið um að ekki yrði um einskonar samruna flokka að ræða en svo hefði litið út í þessu tilfelli. Hún sagðist þó enn telja, að möguleiki væri á sáttum milli hennar og annarra í flokksforustunni og sagðist gera sér vonir um að hægt verði að leysa ágreining fyrir landsþingið. Það frumkvæði yrði þó að koma frá formanninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert