Foreldrar í Reykjanesbæ eru hvattir til að sækja börn sín í skólann við fyrsta tækifæri, að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Segir þar að foreldrar verði að koma inn í skólann og sækja barnið. Lögreglan segir, að ekkert ferðaverður sé á Reykjanesbraut.
Skólarnir munu sjá til þess að ekkert barn fari án fullorðins út í óveðrið. Sama á við Grindavíkurskóla og Stóru-Vogaskóla í Vogum. Í Gerðaskóla í Garði er nokkur fjöldi barna í skólanum og hafa skólayfirvöld þar rætt við foreldra barnanna um að sækja þau.
Öllu skólahaldi var aflýst í Sandgerðisskóla í morgun og eru öll börnin, sem voru komin í skólann, komin til síns heima.