Álag á Samhæfingarstöð almannavarna er stigvaxandi og hafa borist um 70 óskir um aðstoð á höfuðborgarsvæðinu. Helst eru það fjúkandi hlutir en einnig eru þakplötur losna af húsum. Búið er að kalla út allar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu og núna eru um 120 björgunarmenn að störfum ásamt lögreglu og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Einnig hafa borist óskir um aðstoð á Suðurnesjum, Akranesi og Mýrum og þar eru björgunarsveitir einnig að störfum.
Fólk er beðið að vera ekki á ferli að nauðsynjalausu og huga að lausum munum. Foreldrar grunnskólabarna eru beðnir um að halda börnum sínum heima.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni nær veður hámarki um hádegisbil á höfuðborgarsvæðinu en þar verður áfram hvasst fram eftir degi.
Veður fer versnandi á Vestfjörðum.Vonskuveður eru um allt Vesturland. Á Snæfellsnesi hafa vindhviður farið í 40 m/sek í Kolgrafarfirði og í allt að 50 m/sek undir Hafnarfjall og því ekkert ferðaveður. Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði og þar er að hvessa, samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum.