Yfir 220 útköllum sinnt í dag

Vatn flæddi víða yfir götur á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Vatn flæddi víða yfir götur á höfuðborgarsvæðinu í dag. mbl.is/Ómar

Yfir 320 björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitum Slysavarafélagsins Landsbjargar, auk slökkviliðs og lögreglu, hafa í dag sinnt yfir 220 útköllum um land allt. Ástandið hefur verið verst á höfuðborgarsvæðinu þar sem beiðnir um aðstoð hafa verið um 120 talsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu hefur einnig verið mikið annríki hjá björgunarsveitum á Blönduósi og Hvammstanga þar sem 25 verkefni voru leyst og á Suðurnesjum en þar voru björgunarsveitir kallaðar út 15 sinnum.

Nokkuð eignatjón hefur orðið vegna foks en þó mest vegna vatns. Víða hefur flætt í kjallara og eru dæmi um allt að 1 m vatnshæð sem dæla hefur þurft út. Frárennsliskerfi hafa ekki haft undan þannig að gífurlegur vatnselgur hefur myndast á götum þannig að loka hefur þurft fyrir umferð. 
 
Nú hefur veður gengið nokkuð niður á suðvesturhluta landsins en það er enn slæmt á Norðaustur- og Austurlandi og búast má við að veður gangi ekki niður þar fyrr en seint í kvöld.
 
Suðvestanlands má búast við að hvessi aftur með suðvestanátt síðar í kvöld.
 
Viðbragðsaðilar fylgjast áfram grannt með framvindu veðursins og eru tilbúnir til aðgerða ef þörf er á.

Yfir 320 björgunarsveitarmenn hafa verið við störf í dag.
Yfir 320 björgunarsveitarmenn hafa verið við störf í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka