Eyddi fóstri heima

„Ég sætti mig ekki við það að ein­hver segi mér hvað sé í boði og hvað ekki. Ég hlýt að stjórna mín­um lík­ama sjálf," seg­ir kona sem kaus að vera heima hjá sér á meðan hún fram­kvæmdi fóst­ur­eyðingu með hjálp fóst­ur­eyðingarpillu.


Fóst­ur­eyðingarpill­an er lyf sem kon­um er gefið með tveggja daga milli­bili og brýt­ur niður slím­húð legs­ins. Á meðan hún er að skol­ast út er ætl­ast til þess að kon­ur séu á spít­ala. Kon­an seg­ist þó um síðir hafa fengið leyfi lækn­is til að eyða fóstr­inu heima hjá sér.


Fóst­ur­eyðingarpill­an hef­ur verið í boði á sjúkra­hús­um hér á landi í hátt á annað ár. Jens A. Guðmunds­son, yf­ir­lækn­ir á kven­lækn­inga­deild Land­spít­al­ans, seg­ir helsta kost henn­ar þann, fram yfir hefðbundna út­skröp­un­araðgerð, að ekki þurfi að svæfa kon­una. Í um 10% til­vika þurfi þó líka aðgerð, þar sem pill­an dugi ekki til. Meira en helm­ing­ur fóst­ur­eyðinga er enn fram­kvæmd­ur með svæf­ingu.

„Ég lít á spít­ala sem mjög mik­il­væg­ar stofn­an­ir ef eitt­hvað kem­ur upp á hjá mér eða ég þarf á lækn­isþjón­ustu að halda," seg­ir viðmæl­andi 24 stunda en bæt­ir við að ekk­ert hafi komið fram í lýs­ing­um lækna og hjúkr­un­ar­fræðinga sem upp­lýsti hana um nauðsyn þess að vera inni á spít­al­an­um á meðan fóst­ur­eyðing­in færi fram, annað en að starfs­fólki spít­al­ans liði þá bet­ur.


Hún seg­ist hafa spurt hvort mikið væri um inn­grip lækna á meðan á þessu stæði en fengið að vita að það væri ein­ung­is ef blæðing­ar væru óeðli­lega mikl­ar. „Svo var mér sagt að ef kon­um liði illa þætti þeim betra að vera á spít­ala. Sú er ekki raun­in með mig," seg­ir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert