Lagði til dyravarðar með eggvopni

Lögreglan
Lögreglan mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra við handtöku tveggja einstaklinga í gærkvöldi eftir að annar þeirra hafði ógnað dyraverði með eggvopni, en sérsveitin er ávallt kölluð út til aðstoðar þegar vitað er um vopnaburð.

Tildrög málsins voru, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni, þau að karlmanni á þrítugsaldri var vísað út af tónleikum í Laugardalshöllinni í gærkvöldi sökum þess að hann var í annarlegu ástandi og lét illa. Þessu brást maðurinn ókvæða við, dró upp hníf og lagði til dyravarðar að störfum, sem slapp án meiðsla.

Skarst á fæti við spark

Í framhaldinu gekk maðurinn berserksgang fyrir utan höllina, sparkaði í og braut rúðu með þeim afleiðingum að hann skarst á fæti. Að því búnu ók maðurinn á brott ásamt 17 ára stúlku, sem einnig var í annarlegu ástandi. Á leið sinni frá Laugardalshöllinni ók maðurinn utan í bíl.

Alls tóku fjórir lögreglubílar þátt í eftirförinni á bílnum. Maðurinn og stúlkan voru loks handtekin í Meðalholti þar sem hann var búinn að aka utan í annan bíl.

Gistu fangaklefa í nótt

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var maðurinn færður á slysavarðstofu þar sem gert var að sárum á fæti hans. Að því búnu var hann fluttur á lögreglustöð og gistir, ásamt stúlkunni, í fangaklefa í nótt. Þau verða væntanlega bæði yfirheyrð í dag þegar víman hefur runnið af þeim. Málið er nú hjá rannsóknardeild lögreglunnar sem tekur ákvörðun um framhaldið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka