„Fisher ánægður hér á landi"

Bobby Fisher
Bobby Fisher Rax / Ragnar Axelsson

Helgi Ólafsson stórmeistari í skák segist fullur sorgar vegna fráfalls Roberts Fishers sem lést hér á landi í gær og þess hversu erfitt lífið hafi reynst þessum merkilega manni. Helgi segir að síðasta árið hafi verið Fisher erfitt en að hann viti að Fisher hafi verið ánægður hér á landi. Það hafi hann sagt sér nýlega.

Helgi sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að áhrif Fishers á skákheiminn og stöðu skáklistarinnar hafi verið ótvíræð. Hann hafi í raun breytt skáksögu heimsins. „Hann öðlaðist alveg sérstakan sess sem  átrúnaðargoð sem var mjög sérstakt fyrir þessa grein," sagði hann. „Hann átti líka mikinn þátt í að kynna Ísland en heimsmeistaraeinvígið sem háð var hér á landi árið 1972 fyrir tilstuðlan Fishers var stórkostleg landkynning auk þess sem það stuðlaði að stórauknum skákáhuga bæði hér á landi og úti um allan heim. Á þeim tíma var fjallað um einvígið og persónu Fishers á forsíðum allra heimsblaða og tímarita."

Fisher varð heimsmeistari í Laugardalshöll árið 1972 og hylltur sem bandarísk þjóðhetja eftir sigur á sovésku „skákvélinni" í miðju kalda stríðinu. Hann komst hins vegar upp á kant við bandarísk yfirvöld m.a. vegna skákeinvígis sem hann tók þátt í í Júgóslavíu þrátt fyrir að samskipabann væri þá í gildi við landið.

Fischer fékk ríkisborgararétt hér á landi árið 2005 eftir að íslenskur stuðningshópur hans fékk hann hingað til lands frá Japan þar sem hann hafði setið í fangelsi. Honum hafði þá verið neitað um pólitískt hæli víða um lönd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka