Guðjón Ólafur Jónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í Silfri Egils í dag, að hann væri með mörg hnífasett í bakinu eftir Björn Inga Hrafnsson, borgarfulltrúa flokksins. Sagði Guðjón Ólafur m.a., að Björn Ingi hefði unnið gegn sér fyrir kosningarnar 2003 og 2007.
Guðjón Ólafur sagði að þeir Björn Ingi hefðu verið miklir vinir á sínum tíma og hann hefði fengið Björn Inga í Framsóknarflokkinn. Hann hefði síðan gengið í það ásamt Árna Magnússyni, þáverandi félagsmálaráðherra, að fá Björn Inga til starfa fyrir þingflokk framsóknarmanna árið 2002. Allt hefði gengið vel í upphafi en Björn Ingi hafi svo skyndilega sjálfur verið orðinn aðaltalsmaður flokksins og síðan hefði eitt leitt af öðru.
Guðjón Ólafur sagði, að viðbrögð við bréfi, sem hann sendi framsóknarmönnum í Reykjavík nýlega, hefðu verið með miklum ólíkindum. Hann sagðist þekkja Björn Inga það vel, að engar líkur væru á að hann hætti í Framsóknarflokknum þrátt fyrir yfirlýsingar í gær um að að innanflokkserjurnar væru orðnar svo þreytandi að hann þurfi að íhuga hvort það sé þess virði að starfa áfram undir merkjum flokksins. Þær yfirlýsingar væru aðeins leikrit, sem ætlað væri að vekja samúð.
Guðjón Ólafur sagðist fyrst og fremst vera flokksmaður og liðsmaður og alltaf hafa staðið að baki forustu Framsóknarflokksins. Það skipti hann mestu máli að hans liði og flokki gangi vel.