Yfirstandandi vetur á langt í land með að geta talist sérstakur snjóavetur þrátt fyrir að snjóþungt hafi verið frá árámótum miðað við nokkra undanfarna vetur, samkvæmt upplýsingum Haraldar Eiríkssonar veðurfræðings.
Hann segir að snjókomubakki hafi komið upp að suðvesturströnd landsins um klukkan sex í morgun og gengið yfir á rúmlega tveimur tímum. Þá segir hann að útlit sé fyrir að annar svipaður snjókomubakki gangi yfir landið undir kvöld. Fram að þeim tíma megi gera ráð fyrir hvassviðri og éljagangi með dimmum éljum.
Gert er ráð fyrir veðrið gangi alveg niður á morgun og að sunnudag verði hláka. Er líður á sunnudaginn mun hins vegar kólna á ný og um miðja næstu viku er útlit fyrir að snúist í norðanátt með kólnandi en stilltara veðri sunnanlands.