Gera má ráð fyrir leiðindaveðri með dimmum éljum á landinu í allan dag, samkvæmt upplýsingum Haraldar Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Haraldur segir að ekki sé útlit fyrir neitt ferðaveður fyrr en í fyrsta lagi í kvöld.
Hvöss austan og norð-austan átt var á landinu í morgun en hún er nú að snúa sér í vestanátt. Gert er ráð fyrir að töluvert hvassvirðri með snjókomu fylgi henni sérstaklega á Suðaustur og Austurlandi. Einnig er gert ráð fyrir hvassvirðri og þrálátum éljagangi á vestanverðu landinu. Þar verður þó sennilega ekki jafn hvasst og á austanverðu landinu.
Einnig mun kólna með vestanáttinni. Mikil fannfergi er nú víðast hvar á landinu og því skefur víða auk þess sem þar gengir á með éljum.
Ekki er útlit fyrir að veður stillist fyrr en í nótt og fyrramálið en þá ætti veður að vera orðið skaplegt. Seinnipartinn á morgun hlýnar síðan og þá má búast við rigningu og slabbi á götum.