Vilhjálmur: Hef axlað ábyrgð

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segist ekki ætla að hætta sem borgarfulltrúi enda telji hann sig hafa axlað fulla ábyrgð í REI- málinu með því að leggja sig allan  fram um að leggja allt upp á borð í málinu. Hann ætli nú að nota tímann og fara vel yfir stöðu sína áður en hann ákveði hvort hann taki aftur við sem borgarstjóri.

Vilhjálmur sagði að fundur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hafi hafist um hálf eitt í dag og að hann hafi verið  vel sóttur. Farið hafi verið yfir REI-málið í heild sinni og hann skilji vel þá óánægju sem uppi sé vegna þess. Hann viðurkenni einnig að hann hafi gert klaufaleg mistök í málinu.

Spurður um afstöðu samflokksmanna sinna sagði hann borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna standa að baki sér en hann viðurkenni þó að staða sín hafi veikst mjög. Þá sagðist hann ætla að meta það á næstu mánuðum hvort hann telji rétt af sér að taka aftur við embætti borgarstjóra að rúmu ári liðnu, eins og samkomulag núverandi meirihluta borgarstjórnar kveði á um.  

Vilhjálmur vildi einungis ræða við fulltrúa nokkurra fjölmiðla í einu og voru blaðamenn prentmiðla látnir bíða frammi á gangi á meðan Vilhjálmur ræddi við blaðamenn ljósvakamiðla.

Vikulegur fundur borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var haldinn í Valhöll að þessu sinni og stóð til að honum lyki um klukkan eitt. Fundurinn dróst hins vegar á langinn og lauk honum ekki fyrr en rúmlega tvö er Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson, sem sátu lengst á fundinum með Vilhjálmi, yfirgáfu Valhöll um kjallarainngang. 

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fer yfir málin í dag.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fer yfir málin í dag. Árvakur/Gísli Árna
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert