„Óánægja blaðamanna skiljanleg"

Blaðamenn í Valhöll sl. mánudag.
Blaðamenn í Valhöll sl. mánudag. Friðrik Tryggvason

Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir óánægju blaðamanna skiljanlega, vegna fyrirkomulags þegar þeir ræddu við Vilhjálm Þ. Vilhjálmssyni eftir fund borgarfulltrúa flokksins á mánudag. Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands, sendi í dag Sjálfstæðisflokknum bréf þar sem framganga starfsmanna flokksins var hörmuð.

“Sú óánægja sem varð á meðal blaðamanna er skiljanleg. Sú leið sem farin var í samskiptum við blaðamenn að loknum reglubundnum fundi borgarstjórnarflokksins var ákveðin af borgarfulltrúum í því augnamiði að gera þau markvissari", segir Andri.

„Samvinna við fjölmiðla um það fyrirkomulag gekk því miður ekki þrautalaust. Vafalítið spilar þar inn í að væntingar blaðamanna voru töluvert meiri en efni stóðu til og fyrir misskilning töldu þeir að fundi borgarfulltrúanna lyki mun fyrr en raunin varð og menn því orðnir þreyttir og leiðir eftir langa bið."

Andri segist hafa greint blaðamannafélaginu frá því að hann sé reiðubúinn að ræða við fulltrúa þess um málið ef áhugi sé fyrir hendi.

Í bréfi blaðamannafélagsins er það gagnrýnt að hópi fjölmiðlamanna hafi verið meinaður aðgangur að fundi í beinni útsendingu með kjörnum fulltrúa borgarinnar um málefni sem brenni á almenningi.

Þá sagði m.a. að vinnubrögð af því tagi séu til þess fallin að skapa tortryggni og fór félagið fram á það að þau endurtaki sig ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert