Stjórn bókakaupstefnunnar í Frankfurt (Frankfurter Buchmesse) hefur ákveðið að bjóða Íslandi að verða heiðursgestur á sýningunni sem haldin verður haustið 2011.
Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi í byrjun september í fyrra að sækjast eftir því að Ísland hlyti þennan sess.
Ísland verður fyrst Norðurlanda til að skipa þennan sess í Frankfurt. Menntamálaráðherra, ásamt sendiherra Íslands í Þýskalandi og fleirum, sótti síðustu bókasýningu heim og átti þá viðræður við forstjóra og annað starfsfólk kaupstefnunnar. Hefur þeim viðræðum verið fylgt eftir síðan og það hefur orðið til þess að Ísland varð fyrir valinu, en Finnar sóttust einnig eftir því að verða heiðursgestir sýningarinnar árið 2011.
„Með ákvörðun kaupstefnunnar opnast einstakt tækifæri til útrásar fyrir íslenskar bókmenntir og menningu, ekki bara á hinn þýska markað heldur einnig á alþjóðlegan bókamarkað.
Bókakaupstefnan í Frankfurt er sú stærsta í heimi. Hún á rætur allt aftur á 15. öld en hefur smám saman tekið á sig núverandi mynd eftir að hún var endurreist árið 1949.
Á síðustu stefnu, sem haldin var um miðjan október í fyrra, voru sýnendur alls 7450, þar af rösklega 4000 frá löndum utan Þýskalands. Alls voru þátttakendur frá 108 löndum. Sýningarhúsnæðið var alls 172 þúsund fermetrar, kynntir voru tæplega 400 þúsund nýir bókatitlar og um 280 þúsund gestir komu á kaupstefnuna. Íslendingar hafa sótt sýninguna allt frá byrjun sjöunda áratugarins til að kynna bækur sínar og fræðast um bókamarkað heimsins.
Eitt land eða málsvæði er jafnan heiðursgestur sýningarinnar og var því kerfi komið á árið 1988. Það þýðir að viðkomandi land notar kaupstefnuna til að kynna rækilega bækur, höfunda og menningu sína í heild. Sú kynning fer fram bæði á sérstöku sýningarsvæði á kaupstefnunni sjálfri, en ekki síður í aðdraganda hennar, þar sem margvíslegar þýðingar, höfundar- og menningarkynningar eru undirbúnar og fylgir því feiknalegur áhugi í þýskum fjölmiðlum. En áhuginn nær víðar þar sem flest erlend forlög reyna að sýna bækur frá viðkomandi svæði eða afla sér upplýsinga um þær og gildir sama um umboðsmenn. Þegar vel er á málum haldið hefur þetta haft í för með sér að bækur frá viðkomandi svæði eru þýddar á fjölmargar tungur, auk þess sem menningarviðburðir þaðan setja svip sinn á þýskan menningarvettvang svo um munar," samkvæmt tilkynningu.
Stærsta útrásarverkefni íslenskra bókmennta
Íslensk stjórnvöld, í samvinnu við rithöfunda og útgefendur og aðra sem að málinu koma, hafa hugsað sér að nota þetta tækifæri sem allra best til að styrkja þýðingar á íslenskum bókmenntum, jafnt klassískum sem samtímalegum. Ennfremur er hugmyndin að standa fyrir öflugri menningardagskrá í tengslum við sýninguna og nota hana jafnframt sem stökkpall gagnvart öðrum málsvæðum. Þýðingar á íslenskum bókmenntum hafa færst mjög í vöxt á undanförnum árum og með þessu stærsta útrásarverkefni íslenskra bókmennta nokkru sinni gefst einstakt tækifæri til að fylgja því eftir, að því er segir í tilkynningu.
Skipuð hefur verið verkefnisstjórn til að halda utan um þetta verkefni með fulltrúum frá Bókmenntasjóði, menntamálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti og verður Steingrímur Sigurgeirsson aðstoðarmaður menntamálaráðherra formaður hennar. Þá hefur verið samið við Halldór Guðmundsson um að taka að sér stjórn verkefnisins. Halldór hefur margoft sótt bókasýninguna í Frankfurt heim, fyrst sem útgefandi og nú á síðustu árum sem höfundur, en bók hans um Halldór Laxness var nýlega gefin út í Þýskalandi. Ennfremur er ætlunin að koma á fót öflugum samráðshópi þar sem rithöfundar, útgefendur og fulltrúar fleiri listgreina geta lagt sitt til verkefnisins.