„Konurnar heim“

Meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks lagði fram breytingartillögur við frumvarp að þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar í gærdag. Að því er fram kom í framsöguerindi Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra hefur slíkt ekki gerst áður milli umræðna um áætlunina. Breytingarnar gera ráð fyrir aukinni áherslu á skóla- og velferðarmál en ekki var hljómgrunnur fyrir öllum hugmyndum meirihlutans.

Hvað helst skar í augu borgarfulltrúa minnihlutans hugmyndir um að teknar yrðu upp greiðslur til þeirra foreldra sem biðu eftir niðurgreiddum leikskólaplássum. Ekki komu borgarfulltrúar sér saman um hvort kalla ætti greiðslurnar þjónustugjöld eða heimgreiðslu en Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar, fannst við hæfi að þær væru greiddar undir kjörorðinu „konurnar heim“. Dagur gagnrýndi einnig hugmyndina á þeim forsendum að hún gerði ekkert til að stytta biðlista – líkt og borgarstjóri boðaði. „Foreldrar ungra barna árið 2008 eru ekki að bíða eftir skaðabótum, heldur þjónustu. Þau eru að bíða eftir þjónustu leikskóla eða dagmæðra.“

Dagur sagði óviðunandi að börnum í Reykjavík fjölgaði meira en leikskólaplássum og kallaði eftir örari uppbyggingu leikskóla.

Borgarstjóri taldi fráleitt að verið væri að kalla konurnar heim á heimilin en taldi greiðslurnar koma foreldrum vel við að kaupa aðra þjónustu. Nýir leikskólar yrðu byggðir í takt við aðra uppbyggingu, s.s. í nýjum hverfum og með viðbyggingum við eldri skóla.

Í innblásinni ræðu sinni tók Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG, í svipaðan streng og Dagur hvað varðaði heimgreiðslurnar. „Ég nefni heimgreiðslu til foreldra meðan beðið er eftir leikskólaplássi [...] fyrirheit um stærsta skref aftur á bak í kvenfrelsismálum sem við höfum séð í sögu borgarstjórnar.“ Svandís sagði femínista í öllum flokkum geta sammælst um það og kallaði greiðslurnar ekkert annað en kvennagildru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka