Samanborið við þau Norðurlönd og lönd í Mið-Evrópu sem við á Íslandi berum okkur gjarnan við er verð á bensíni lægra hér á landi þrátt fyrir þær miklu hækkanir sem orðið hafa undanfarið.
Algengasta verðið á bensínlítra hér í sjálfsafgreiðslu virðist við óformlega skyndikönnun blaðamanns vera 147,90 krónur en á Norðurlöndum er það frá 165,79 í Svíþjóð upp í 194,99 í Noregi.
Á bensínstöðvum Olís, N1 og Skeljungi var algengasta verðið á 95 oktana blýlausu bensíni 147,90 í sjálfsafgreiðslu en hjá Atlantsolíu og ÓB stöðvum á höfuðborgarsvæðinu var það 145,80.
Á dönsku vefsíðunni www.benzinpriser.nu sem heldur til haga bensínverði í Evrópu í dönskum krónum má sjá að á gengi dagsins (dönsk króna á 16,50) kostar 95 oktana blýlaust bensín 173,22 íslenskar krónur í Danmörku, 194,99 í Noregi og 165,79 í Svíþjóð, 172,23 í Finnlandi og 168,43 í Frakklandi og á Bretlandi kostar lítrinn 168,93.
Fall krónunnar er skýringin
Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að í síðustu viku áður en hækkanirnar dundu yfir og krónan féll að þá voru einungis Noregur og Holland með dýrara bensín.
Helmingi hærra hlutfall rennur til olíufélaganna
„Þetta er háskattavara í löndunum í kringum okkur en ef þú skoðar vefinn hjá til dæmis Statoil.dk þá kemur fram að um 10% af útseldum lítra sé hlutur olíufélags. Það er ekki hægt að segja að þetta sé algerlega samanburðarhæft vegna óljósra upplýsinga um flutningskostnað og fleira en ef maður tekur sömu köku hér heima þá eru um 20% af útseldum lítra (miðað við sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð) hlutur olíufélags og kostnaður við flutning og dreifingu," sagði Runólfur.
Hann benti á að álagningin væri talsvert hærri hér á landi, „auðvitað á eitthvað af því sér skýringu í því að við erum á smærri markaði og dreifing erfiðari en öfugt við það sem hefur verið að gerast á danska markaðnum hafa útsölustöðum fjölgað mjög á Íslandi á síðustu árum," sagði Runólfur og vildi meina að það benti til þess að það væri greinilega eftir einhverju að slægjast á þessum markaði og slagurinn um lóðir undir útsölustaði væri einnig vísbending um að bensínsala á Íslandi væri mjög ábatasamur markaður.