Áframhaldandi „umferðarskærur"

Bílaumferð um Ártúnsbrekku í Reykjavík og á Kringlumýrar- og Miklubraut stöðvaðist algerlega í um hálfa klukkustund í dag þegar bílstjórar um 70 til eitt hundrað vörubifreiða efndu til aðgerða, annan daginn í röð, til að mótmæla meðal annars háu eldsneytisverði og skorti á hvíldaraðstöðu á landsbyggðinni.

Bílstjórarnir héldu áfram aðgerðum fram eftir degi og óku m.a. löturhægt um Suðurlandsveg við Rauðavatn og Hafnarfjarðarveg og Reykjanesbraut.

Sturla Jónsson, talsmaður atvinnubílstjóra, segir að ekki verði látið af aðgerðum fyrr en ráðamenn fari að hlusta á kröfur bílstjóranna, sem segjast enn hafa tromp uppi í erminni. Atvinnubílstjórar vilja einnig höfða til almennings.

Ökumenn sem þurftu að bíða í umferðarhnútnum sem skapaðist út af aðgerðunum í dag voru almennt rólegir og þeir sem mbl.is fréttir ræddu við studdu aðgerðirnar.

Lögreglan beindi umferð eins og unnt var frá þeim stöðum þar sem aðgerðirnar fóru fram og hófu að sekta einhverja bílstjóra. Meðan því fór fram stoppaði síminn ekki hjá Sturlu sem segist finna fyrir miklum stuðningi almennings. Hann hefur þó ekkert heyrt enn frá stjórnmálamönnum – hvorki úr stjórn eða stjórnarandstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert