Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar lýsir yfir áhyggjum af miklum sveiflum í gengi íslensku krónunnar. Þessar sveiflur eru greininni mjög erfiðar og hafa haft mikil áhrif á afkomu fyrirtækja. Gengisþróun, verðsveiflur og háir vextir skekkja samkeppnishæfi íslensks atvinnulífs svo mikið að ekki verður áfram við unað.
Aðild að ESB könnuð
„ Miklar sveiflur í gengi koma í veg fyrir virka áætlunargerð innan fyrirtækja. Eðli ferðaþjónustu er þannig, að fyrirtæki selja og verðleggja þjónustu sína oft langt fram í tímann. Verðlagning til erlendra viðskiptavina er í erlendri mynt en stór hluti kostnaðar í krónum. Það þýðir, að stjórnendur fyrirtækja vita lítið hvað fæst á endanum greitt fyrir selda þjónustu. Gengistryggingar eru mjög dýrar fyrir fyrirtækin vegna mikils vaxtamunar og því takmörkuð lausn. Þetta er óviðunandi ástand í öllum rekstri.
Það er brýnt að íslensk stjórnvöld marki stefnu til framtíðar og atvinnulífið verður að fá að taka mjög virkan þátt í þeirri umræðu. Einhliða upptaka evru virðist ekki raunhæfur kostur í stöðunni ef Ísland kýs að standa utan Evrópusambandsins. Aðalfundur SAF beinir því til næstu stjórnar SAF að standa á næsta starfsári fyrir umræðum og kynningum á kostum og göllum Evrópusambandsins. Því er ennfremur beint til stjórnar að gerð verði að þeim loknum könnun meðal félagsmanna um afstöðu þeirra til umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Þessi könnum verður síðan notuð til að móta stefnu SAF í umræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu, að því er segir í ályktun aðalfundar SAF.