Stefnt að samræmingu kynningarstarfs

Nefnd, sem forsætisráðherra skipaði í haust um ímynd Íslands, leggur til að kjarninn í þeirri ímynd verði kraftur, frelsi og friður og segir að náttúrulegur kraftur sé sérkenni Íslands. Segir nefndin, að þetta séu lykilorð sem farsælt sé að byggja á jákvæða og sanna ímynd af landi og þjóð.

Skýrsla nefndarinnar var kynnt í dag, og tók Geir H. Harde, forsætisráðherra, fram á blaðamannafundi, að nefndarstarfið hefði verið ólaunað. Sagði Geir, að ákveðið hefði verið að vinnuhópur fjögurra ráðuneyta muni fylgja skýrslunni eftir og útfæra tillögur sem þar koma fram.

Nefndin leggur m.a. til, að komið verði á nýjum vettvangi, Promote Iceland, þar sem aðilar í útflutningi, ferðaþjónustu, fjármálastarfsemi, menningarlífi og þekkingariðnaði kæmu til samstarfs við hið opinbera.

Segir nefndin að þetta feli í sér endurskipulagningu á núverandi fyrirkomulagi og fjármögnun kynningarmála Íslands. Þá vill nefndin að prófaðir verði ímyndarkjarnar og sérkenni við helstu atvinnugreinar og markhópa. 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði á fundi þar sem skýrslan var kynnt, að mikil vinna væri unnin til að styrkja ímynd Íslands en hana þyrfti að samræma betur.

Svafa Grönfeldt, rektor við Háskólann í Reykjavík og formaður nefndarinnar, sagði á fundinum að álag á ímynd Íslands hefði verið  mikið að undanförnu. Ásamt henni sátu í nefndinni  Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Jón Karl Ólafsson, forstjóri JetX/Primera Air, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs í utanríkisráðuneytinu, Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og Sverrir Björnsson, framkvæmdastjóri hönnunarsviðs Hvíta hússins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka