Kennarar ósáttir við skorkort

„Ég hef miklar efasemdir um að skorkort eigi við í jafn flókinni stofnun og háskóla,“ segir Gunnar Helgi Kristinson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Til stendur að innleiða skorkortið á næstu mánuðum en það er safn árangursmælikvarða sem eiga að endurspegla þætti sem mikilvægir eru fyrir stefnu háskólans og ætlað er að meta framlag háskólakennara. Þegar hafa nokkrar skorir innan félagsvísindadeildar lagt fram ályktun þess efnis að drögin að skorkortinu séu of raunvísindamiðuð.

Kemur kortið meðal annars til vegna samnings milli menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands um að háskólinn fengi viðbótarframlag, gegn því að geta sýnt fram á betri árangur.

Fara yfir í þunglamalegt kerfi

„Auk þess átta ég mig ekki alveg á hvers vegna menn vilja fara yfir í frekar þunglamalega árangursmælingu, eins og skorkortið er, frekar en að nota það árangurskerfi sem er til staðar og hefur skilað Háskóla Íslands góðum árangri,“ bætir Gunnar Helgi við og bendir á að nú þegar sé háskólinn með vinnumatskerfi sem meti nánast allt sem akademískir starfsmenn hans gera.

Gunnar Helgi varar auk þess við því að of mikið sé gert úr markmiðinu um að koma Háskóla Íslands í hóp 100 bestu háskóla heims. „Ekki má gefa þeirri hugmynd of mikið vægi á kostnað hlutverks háskólans fyrir samfélagið.“

Raunvísindamiðað skorkort

Jónína Einarsdóttir, dósent í mannfræði, er einnig gagnrýnin á þau drög að skorkorti sem lögð hafa verið fram. „Við höfum gagnrýnt að sami mælikvarði sé hafður á vinnuframlagi allra, enda eru mismunandi áherslur og birtingahefðir á milli fræðigreina.“

Hún segir að miðað við þau drög sem lögð hafi verið fram sé vinnumatið of raunvísindamiðað og taki ekki nægilegt mið af þeim birtingahefðum sem gilda í félagsvísindum. „Að mínu mati væri eðlilegra að hafa tvö vinnumatskerfi; eitt fyrir félags- og hugvísindi og annað fyrir raunvísindi.“

Snjólfur Ólafsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild, sem ásamt öðrum vinnur að gerð skorkortsins, segir unnið að því að vinnumatskerfið samræmist sem best ólíkum fræðigreinum.

Magn á kostnað gæða

Einn mælikvarðanna í skorkorti háskólans er fjöldi doktorsnema við skólann og er það talið til marks um framför háskólans að fjöldi doktorsnema aukist. „Það virðist vera meira lagt upp úr magni doktorsnema en gæði doktorsnáms,“ segir Jónína. „En á endanum bítur það í skottið á sér, því ekki getur verið heppilegt fyrir nemendur í doktorsnámi að vera með kennara sem hafa of marga nemendur.“

Snjólfur tekur undir að mikilvægt sé að Íslendingar sæki sér menntun sem víðast um heim, enda stuðli það að fjölbreytni íslensks vinnumarkaðar. „Hins vegar eru sífellt fleiri Íslendingar sem vilja og þurfa að sækja sér framhaldsmenntunar og það hafa ekki allir tækifæri til að sækja nám erlendis.“

Því hafi fjölgun doktorsnema við Háskóla Íslands, bæði íslenskra og erlendra, verið eitt af því sem mest hafi verið lagt upp úr þegar ný stefna háskólans var mótuð fyrir tveimur árum.

Í hnotskurn
Skorkortið er safn árangursmælikvarða sem eiga að endurspegla mikilvæga þætti í stefnu HÍ. Stefnt er að því að leggja skorkortið fyrir undir lok vormisseris 2008.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert