Starfsmenn Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL)og Rannveig Traustadóttir, prófessor við uppeldis- og menntunarfræðiskor Háskóla Íslands, hljóta Félagshyggjuverðlaun Ungra jafnaðarmanna en verðlaunin verða afhent klukkan 16.00 í dag á Hótel Borg. Þá hlýtur Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra sérstaka heiðursviðurkenningu.
Fram kemur í fréttatilkynningu UJ að starfsmenn BUGL hljóti verðlaunin fyrir að hafa í gegnum þykkt og þunnt unnið stórkostlegt starf með börnum og unglingum með geðraskanir og stuðlað þannig að betra samfélagi. Það ber vott um samfélagslega ábyrgð að starfa undir miklu álagi í þágu meðborgara.
Rannveig Traustadóttir, prófessor við uppeldis- og menntunarfræðiskor Háskóla Íslands hafi með rannsóknum sínum og störfum í þágu minnihlutahópa átt víðtæka aðkomu að því að bæta samfélagið okkar. Innflytjendur, fatlaðir og samkynhneigðir njóta góðs af störfum Rannveigar sem hefur átt mikinn þátt í að stuðla að jafnaðara samfélagi á ólíkum forsendum hvers og eins.
Þá segir að Ungir jafnaðarmenn vilja heiðra Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra sérstaklega fyrir að hafa aldrei á þrjátíu ára ferli á Alþingi vikið frá jafnaðarhugsjóninni í sínum störfum. Frá því að Jóhanna tók við ráðherraembætti vorið 2007 og fram til vors 2008 hafi hún af skörungsskap hrint ótal mikilvægum verkefnum í framkvæmd sem stuðla munu að betra samfélagi.