Friðrik og Mary kynntust íslenska hestinum

Friðrik krónprins Danmerkur og eiginkona hans Mary krónprinsessa heimsóttu Dalland í morgun og tóku Gunnar Dungal og Þórdís Alda Sigurðardóttir á móti gestum.  Eftir stutta sýningu fóru hjónin í reiðtúr með hestum frá Dallandi og Íshestum, ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands og Dorrit Moussaieff forsetafrú.  Íslenskir gæðingar voru sýndir, og meðal annars riðu knapar með bjórglas í hendi til að sýna hversu mjúkt og lipurt töltið er í íslenska hestinum.

Friðrik og Mary komu til Íslands í opinbera heimsókn í gær og dvelja hér þar til á fimmtudag.  Friðrik prins sagði í gær að hann hlakkaði sérstaklega til þess að kynnast íslenska hestinum og að sá dagskrárliður væri einn af þeim sem stæðu upp úr í heimsókn þeirra hjóna.  Friðrik og Mary létu vel af reiðtúrnum og sjá má að þau virtust skemmta sér vel.

Fjölbreytt dagskrá bíður hjónanna í dag og fara þau m.a að Nesjavöllum þar sem þeim verður kynnt starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og á hádegi verður haldið til Þingvalla þar sem hjónin borða hádegisverð í boði forsætisráðherra.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert