SMS-ið tvöfaldast í verði

Frá og með 5. júní næstkomandi munu fyrrverandi viðskiptavinir SKO, eða núverandi viðskiptavinir Tals eftir að símafyrirtækin Hive og SKO sameinuðust á dögunum, þurfa að borga rúmlega tvöfalt meira fyrir SMS-skilaboð sem þeir senda úr farsímum sínum en fyrir sameiningu fjarskiptafyrirtækjanna.

Þess má geta að viðskiptavinir SKO munu áfram borga sömu upphæð fyrir mínútuna í tali, eða 14,9 krónur.

Samkvæmt verðskrá SKO kostaði það viðskiptavini fyrirtækisins 4,90 krónur að senda SMS-skilaboð fyrir sameiningu, en nú kostar eitt SMS 9,90 krónur. Annað sem ber að nefna er að hjá hinu nýja símafyrirtæki miðast tímamæling fyrir símtöl við sextíu sekúndur en hjá SKO miðaðist tímamælingin við þrjátíu sekúndur. Samkvæmt heimildum 24 stunda jafngildir þessi breyting því að símareikningur geti hækkað um allt að fimm prósent.

Ofangreint gengur í berhögg við yfirlýsingar forsvarsmanna hins nýja símafyrirtækis, því þeir hafa boðað tuttugu til þrjátíu prósenta lækkun á fjarskiptamarkaði.

„Allir okkar viðskiptavinir sem voru hjá SKO halda sínum kjörum eftir sameiningu að þessari hækkun undanskilinni,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, markaðsstjóri Tals. „Þeir munu halda áfram sínum fimm símavinum sem þeir geta talað frítt við í 120 mínútur á dag.“

Að sögn Sigmars hefur ekki verið ákveðið hversu lengi fyrrverandi viðskiptavinum SKO bjóðast sömu kjör og þeir höfðu fyrir sameiningu fyrirtækjanna tveggja.

Samkvæmt verðskrá Tals geta viðskiptavinir fyrirtækisins hringt gjaldfrjálst í þrjá einstaklinga sem eru í viðskiptum hjá fyrirtækinu, í 100 mínútur á dag. Hjá SKO voru símavinirnir fimm og frímínúturnar svokölluðu 120 talsins.

„Meginástæða þessara verðhækkana er sú að við erum sjálfstætt fjarskiptafyrirtæki í dag, en SKO var 100% í eigu Vodafone. Þannig að öll samlegðaráhrif SKO undir Vodafone eru ekki lengur fyrir hendi. Rekstrarkostnaður okkar á símafyrirtækinu í dag er hærri en þegar SKO var rekið undir Vodafone.“

Minnkandi samkeppni

Með sameiningu símafyrirtækjanna SKO og Hive í Tal á dögunum, fækkaði símafyrirtækjum hérlendis úr fimm í fjögur. Hið nýja sameinaða símafyrirtæki er í eigu tækni- og fjarskiptafyrirtækisins Teymis að meirihluta, þar sem Baugur er stærsti hluthafi með 24,5 prósenta eignarhlut. Teymi á sömuleiðis símafyrirtækið Vodafone, en eins og kunnugt er hét Vodafone Tal áður en nafni þess var breytt. „Samgangur á milli Tals og Vodafone er enginn. Við kaupum af þeim þjónustu eins og við kaupum af Símanum. Samkeppnin okkar á milli er alveg jafn hörð og á milli okkar og Símans,“ segir Sigmar.

Hærra þjónustustig

„Við veitum miklu meiri þjónustu í dag en Hive og SKO buðu upp á fyrir sameininguna og þegar þjónustustigið hækkar fylgir því meiri kostnaður fyrir fyrirtækið. Þessi hækkun til viðskiptavina okkar er hins vegar óveruleg þegar horft er til þeirra auknu gæða sem við erum að veita fyrrverandi viðskiptavinum þessara símafyrirtækja.“
Í hnotskurn
Samkvæmt heimasíðu símafyrirtækisins er hlutverk þess að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði til hagsbóta fyrir neytendur. Stefna Tals er að ná afgerandi stöðu á lággjaldamarkaði á sviði fjarskiptaþjónustu með einföldu vöruframboði og gagnsærri verðlagningu. Fyrirtækið stefnir að því að hafa náð 20% markaðshlutdeild á fjarskiptamarkaði árið 2011.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka