„Ég er ekki sammála því að umræðan sé ótímabær. Ég tel að við getum alveg rætt um hvaða leiðir eru best til þess fallnar að upplýsa bæði þing og þjóð um kosti og ekki síður galla aðildar að ESB,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, spurð út í viðbrögð samþingmanna sinna á síðum Morgunblaðsins undanfarna daga við hugmynd sem hún vék að á opnum fundi í Kópavogi í síðustu viku, þ.e. að þjóðin fái að kjósa um aðild að ESB, og það gæti allt eins gerst á næsta kjörtímabili.
Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson og Sigurður Kári Kristjánsson hafa allir lýst því að þeim þyki umræðan um dagsetningar á þjóðaratkvæðagreiðslu vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að ESB ótímabær. Þorgerður segist hins vegar telja að fyrr eða síðar muni þjóðin fá að kjósa og umræðan um breytingar á stjórnarskrá eigi m.a. að fara fram fyrir næstu kosningar. „Það er mín skoðun að við eigum að ræða um að breyta stjórnarskránni fyrir næstu kosningar, það er ekkert nýtt og það hef ég m.a. sagt í Silfri Egils, og fleiri reyndar sagt það. Það þýðir að minnsta kosti tvö þing munu fá tækifæri til að ræða um slíkar breytingar á pólitískum nótum.“
Þorgerður segir ljóst að innan Sjálfstæðisflokksins hafi menn skiptar skoðanir á því hvernig nálgast eigi viðfangsefnið, en að hennar mati er umræðan um Evrópumál tímabær og opinskáar umræður mikilvægar. Hún undirstrikar og leggur áherslu á að hún fylgi stefnu flokksins og er andvíg aðild að ESB. „Ég tek undir með formanni flokksins. Þetta er kalt hagsmunamat hverju sinni og ég tel hagsmunum okkar ekki betur borgið innan ESB heldur frekar utan, eins og sakir standa. En þó að ég hafi þessa skoðun þá þýðir ekki að setja pottlokið á umræðuna. Það er alveg ljóst að fólk er tvístígandi og þá frekar fólk utan stjórnmálanna. Það áttar sig ekki á hvað það þýðir að vera aðili að Evrópusambandinu. Við þurfum að geta frætt fólk um hvað aðild, eða það að standa utan við ESB, þýðir fyrir Jón og Gunnu þessa samfélags.“