Hjalti Jón kom víða við í ávarpi sínu við brautskráninguna í morgun og sagði m.a. mikilvægt að staldra einmitt við núna í ljósi þess að næsta haust verða að öllum líkindum gengin í gildi ný lög um framhaldsskóla. Hann sagði þau muni hafa ýmsar breytingar í för með sér, sem geta hvort sem er valdið fjölgun nemenda eða fækkun.
„Helsta breytingin er sú að mínum dómi að framahaldsskólar munu í framtíðinni hafa meira frelsi til þess að laga námskrár hinn ýmsu brauta að aðstæðum hvers og eins auk þess sem gera má ráð fyrir að námsframboð eins og hér í Verkmenntaskólanum á Akureyri muni aukast enn frekar.
Munu hin nýju lögin aðeins taka gildi að takmörkuðu leyti á hausti komanda – enda fela þau í sér margvíslegar breytingar – en mikil vinna bíður okkar næstu misserin við að laga skólastarfið að hinni nýju löggjöf og nýta tækifærin sem þau gefa okkur.“
Pottur víða mölbrotinn varðandi námsefni
Hjalti Jón sagði sig og annað skólafólk gera sér vonir um að nýju lögunum muni fylgja aukið fjármagn inn í framhaldsskólakerfið eins og til námsefnisgerðar því að þar sé pottur víða mölbrotinn, eins og hann komst að orði.
„Nú er tækifærið fyrir stjórnvöld að bæta verulega í og auglýsa hreinlega eftir fólki í fullt starf næstu tvö til þrjú árin til þess að semja kennsluefni í fjölmörgum greinum sem yrði bæði í takt við nýja tíma og bætti úr þeirri brýnu þörf sem víða er fyrir hendi. Ófullkomnar kennslubækur og skortur á kennsluefni, jafnvel algjörlega í sumum tilvikum, gera vinnu kennara miklu meiri en ella auk þess sem nemendur eiga kröfu á því að slíkt sé fyrir hendi í öllum greinum.“
Í nýjum framhaldsskólalögum er meðal annars kveðið á um að í fjárlögum ár hvert skuli tilgreind sú fjárhæð sem veitt verði til að mæta
kostnaði nemenda vegna námsgagna, sem sannarlega sé nýjung, sagði Hjalti Jón. Þá segir að ráðherra muni setja reglur um skiptingu fjárins og fyrirkomulag þessa stuðnings.
„Með hliðsjón af þessari lagagrein er þeim mun mikilvægara að til sé gott og aðgengilegt kennsluefni – en segja má að umræddur skortur sé einn helsti veikleiki framhaldsskólakerfisins í dag en einkum þó á sviði starfs- og verknáms. – Í ljósi þess að jafnræði bóknáms og verknáms sé eitt af meginmarkmiðum hinna nýju laga þá skora ég á stjórnvöld að nota nú tækifærið og bæta hér úr skák svo um munar,“ sagði skólameistari VMA.
Betra að efla almenningssamgöngur
Þá vék Hjalti Jón að hugmyndum um að stofna litla framhaldsskóla víðs vegar um landið. Kvaðst hann hafa fylgst með og tekið þátt í umræðum þar um undanfarin ár. „Sitthvað í þessum hugmyndum finnst mér orka tvímælis einkum og sér í lagi vegna þess að gert er ráð fyrir að hinir nýju skólar verði reistir í nágrenni stærri skóla, sem hafa verið að byggja upp fjölbreytt námsframboð bæði verklegt og bóklegt með hagsmuni ákveðinna svæða í huga. Hér á ég við fyrirætlanir um stofnun framhaldsskóla á Reyðarfirði, í næsta nágrenni bæði við Verkmenntaskóla Austurlands á Norðfirði og Menntaskólann á Egilsstöðum. Einnig er verið að ræða stofnun skóla á Hvolsvelli – en hingað til hafa nemendur af Rangárvöllum sótt Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Í þriðja lagi er verið að ræða stofnun framhaldsskóla í Grindavík – en Fjölbrautaskóli Suðurnesja í Keflavík hefur hingað til þjónað nemendum þaðan með sóma.“
Hjalti Jón segist þeirrar skoðunar að skynsamlegra sé að efla almenningssamgöngur innan þessara svæða, en þannig gæfist nemendum kostur á að sækja öflugri skóla með miklu námsframboði. Litlu skólarnir muni aðeins geta boðið upp á takmarkaðar námsleiðir – og þá fyrst og fremst á sviði bóknáms.
„Auk þess tel ég að hinir nýju skólar muni draga úr krafti þeirra sem fyrir eru sem þurfi þá jafnvel í kjölfarið að rifa seglin með því að fækka kostnaðarsömum verknámsdeildum. Spurning mín er því sú: Er þetta leiðin til að bæta aðgengi nemenda á landsbyggðinni að fjölbreyttu framhaldsskólanám?“
Skólameistari VMA orðaði það svo að ekki væri gott að segja hvaða áhrif væntanleg stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð muni hafa á starfsemi framhaldsskólanna á Akureyri ,sem báðir hafi verið í mikilli sókn á undanförnum árum. „Ekki verður það heldur séð fyrir fyrir hvort nemendur af Dalvík munu fremur koma hingað en að fara til Ólafsfjarðar þar sem fyrirhugað er að reisa hinn nýja skóla. Þá er næsta víst að einhverjir nemendur bæði úr Dalvíkur- og Fjallabyggð munu eftir sem áður taka stefnuna á Menntaskólann á Akureyri og aðrir hingað í Verkmenntaskólann í krafti hins mikla og kraftmikla námsframboðs.
Þá má geta þess að nemendur af þessu svæði, alla vega hvað VMA varðar, hafa verið í forgangshópi bæði á heimavistinni og við inntöku nýnema á haustin.
Um þessar mundir er verið að endurskoða almenningssamgöngur um Eyjafjörð og ég held því fram að fjölgun ferða um svæðið myndi ekki síst þjóna framhaldsskólanemendum.
Vissulega er gott að nemendur geti sótt framhaldsskóla í heimabyggð eða sem næst henni. Ég get samt ekki neitað því að þessi þróun, sem virðist vera farin af stað, veldur mér nokkrum áhyggjum og hef ákveðnar efasemdir um að hún verði til góðs þegar heildarmyndin er skoðuð,“ sagði Hjalti Jón.