Maður sem handtekinn var á Patreksfirði um sjómannadagshelgina hafði skallað mann í andlitið og barið annan áður en lögregla kom á vettvang. Myndbandsupptaka sem sýnir átök lögreglu við manninn hefur verið birt á YouTube.
Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að sem betur fer sé sjaldgæft að lögregla lendi í jafn erfiðum aðstæðum og þarna hafi myndast og í átökum við fólk með jafn einbeittan vilja til átaka og þarna hafi komið fram.
Maðurinn, sem handtekinn var, hafi verið búin að ganga um og berja fólk og ógna því áður en lögregla var kölluð á vettvang. Þá hafi hann ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu er hún kom á staðinn og sýnt skýran vilja til að berja á lögreglunni.
Önundur segir lögreglumenn á staðnum hafi hlýtt fyrirmælum yfirboðara sinna um að handtaka manninn og að hann telji viðbrögð þeirra hafa verið hófstillt og í samræmi við aðstæður. Þá segist hann ekki hafa neitt við það að athuga að myndband af atvikinu hafi verið birt. Það sé ákveðið aðhald fyrir lögreglu að vita af myndavélum enda eigi lögregla aldrei að beita meiri hörku í störfum sínum en nauðsynleg sé hverju sinni. Í umræddu tilviki hafi hins vegar ákveðin harka verið nauðsynleg.
Spurður um afskipti annarra á vettvangi sagði Önundur að hann telji að þar hafi fyrst og fremst verið um fylleríslæti að ræða og að ekki hafi verið talin ástæða til afskipa af öðrum sem þar voru. Ekki sé óalgengt að vegfarendur taki afstöðu gegn lögreglu þegar til átaka komi enda forði aðrir sér yfirleitt af svæðinu.
Maðurinn var handtekinn klukkan 04:45 á mánudagsmorgun og sleppt úr haldi klukkan 20:50 sama dag. Hann hafði þá sofið úr sér og verið yfirheyrður. Á sama tíma ræddi lögregla við vitni. Hafa tvær kærur gegn manninum borist til lögreglu.
Myndbandsupptakan á YouTube