Sveitarfélögin á Snæfellsnesi fá græna vottun

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er nú vottuð sem …
Sveitarfélögin á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er nú vottuð sem græn svæði. Stefán Gíslason

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull fengu í gær, sunnudag, afhenta formlega staðfestingu á nýfenginni vottun þeirra samkvæmt samfélagastaðli alþjóðlegu umhverfisvottunarsamtakanna Green Globe. Snæfellsnes er fyrsta svæðið í Evrópu sem hlýtur þessa vottun og reyndar aðeins það fjórða í heiminum öllum. Vottunin var formlega afhent við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði að viðstöddum forseta Íslands, forseta Alþingis og fjölda annarra gesta.

Stefán Gíslason hjá UMÍS ehf. Environice sem unnið hefur sem ráðgjafi heimamanna í málinu allt frá upphafi segir að ávinningur af vottuninni sé tvískiptur. Í fyrsta lagi bætir vottunin ímynd og í öðru lagi verði reksturinn betri.

„Þessu fylgir gjarnan sparnaður og betri yfirsýn yfir það sem menn gera, sérstaklega í umhverfismálum. Svo býr þetta líka í haginn fyrir komandi kynslóðir því það dregur úr neikvæðum áhrifum á umhverfið,“segir Stefán.

Kostnaður við svona vottun er talsverður og er meirihluti hans vegna kerfisbreytinga. Oft þurfi að fjárfesta í búnaði vegna úrgangs-, vatns- og frárennslismála og koma á gæðastýringu. Skráning á flestu sé bætt og það þarf að koma á verklagsreglum, búa til skráningarblöð og fleira í þessum dúr. Að auki er lögð áhersla á að koma boðskiptaleiðum við almenning í skipulagt horf.

Einna stærsti ávinningurinn er fólginn í betri stjórnun og markvissari aðgerðum, segir Stefán. Menn fari frá því að fylgja tilskipunum frá degi til dags og yfir í áætlanir til lengri tíma. Þeim eigi svo að vera fylgt kerfisbundið.

Í Green Globe er mikilvægt að menn geri rannsóknir á þolmörkum ferðamannastaða og hvernig hvernig eigi að bregðast við aukinni umferð. Þetta flýtir fyrir að staðir séu friðaðir og friðlönd og þjóðgarðar séu stofnaðir. ,,Með svona vottun eru menn betur í stakk búnir að taka á móti ferðamönnum og að stýra eigin auðlindum.”

Einnig er lögð áhersla á að allar merkingar séu góðar og að aðgengi fyrir fatlaða sé í góðu horfi. Það geri svæðið áhugaverðara heim að sækja.

Ferðamannaiðnaðurinn vex að meðaltali um 5% árlega og segir Stefán að þar sem fólk verði sífellt meðvitaðra um umhverfisvernd sé hægt að rökstyðja að ferðamannastraumur á græn ferðamannasvæði vaxi umfram önnur enda séu til dæmis komnar bókunarvélar sem eingöngu finna slík svæði fyrir fólk.

Green Globe er eina græna vottunarkerfið sem samfélög geta notað en mörg slík eru til fyrir fyrirtæki, segir Stefán. Árlega muni óháðir aðilar taka vottaða aðila út fyrir Green Globe og meta hvort  verið sé að standa við gefin fyrirheit og áætlanir. Þannig sé komið í veg fyrir hagsmunaárekstur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert