Eftir Guðrúnu Hálfdánardóttur
Ísbjörninn sem gekk á land að Hrauni á Skaga í gær var drepinn nú á sjöunda tímanum að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar, yfirlögregluþjóns á Sauðárkróki. Segir Stefán að dýrið hafi tekið á rás í átt til sjávar „og því var ekki annað í stöðunni en að skjóta það, því miður."
Að sögn Stefáns virðist sem danski sérfræðingurinn, Carsten Grøndahl, sem átti að skjóta deyfilyfinu í ísbjörninn hafi ekki náð að skjóta deyfilyfinu þaðan sem hann var staðsettur.
Ekki tókst að komast nógu nálægt honum til að hægt væri að skjóta svefnlyfi í hann. Um var að ræða kvendýr sem líklegast var sært á báðum framfótum og horað og væntanlega ekki þolað svæfingu, samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun.
Vissum að allt yrði að ganga upp
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, er stödd á Skaga, þar sem hún fylgdist með björgunartilraunum. „Við vissum að allt þyrfti að ganga upp til þess að hægt yrði að bjarga ísbirninum. Það tókst því miður ekki, sagði Þórunn í samtali við mbl.is.