„Ég varð dauðhrædd þegar ég sá björninn,“ segir Karen Helga Steinsdóttir, heimasæta á Hrauni II í Skagafirði, sem gekk fram á hvítbjörninn um miðjan dag í gær. Í samtali við Morgunblaðið segist Karen hafa elt hundinn á bænum sem hafi hlaupið geltandi út í æðarvarpið. „Hann má ekki vera þar því þá fljúga allar kollurnar af hreiðrunum, þannig að ég elti hann og hugðist sækja hann. Ég tók eftir einhverju hvítu í brekkunni og hélt bara að þetta væri áburðarpoki.
Síðan þegar ég kom nær þá skyndilega lyfti björninn höfðinu og horfði á mig,“ segir Karen og tekur fram að hún hafi þá verið í um 100 metra fjarlægð frá birninum. Segist Karen hafa hlaupið eins hratt heim og fætur toguðu og látið mömmu sína vita af birninum, en hún hringdi í framhaldinu á lögregluna.
Í samtali við Morgunblaðið segist Rögnvaldur hafa fylgst með hvítabirninum í allan gærdag en björninn hafði komið sér fyrir í lítilli kvos uppi á hól í miðju æðarvarpinu í um 230 metra fjarlægð frá bænum. Tekur hann fram að hann óttist að nærvera hvítabjarnarins muni hafa neikvæð áhrif á æðarvarpið á næstu árum.
„Hann var auðsjáanlega búinn að tína úr mörgum hreiðrunum. Hann virðist vera búinn að seðja sig vel því hann er búinn að vera svo rólegur í allan dag,“ segir Rögnvaldur, en þetta er ekki fyrsti hvítabjörninn sem hann kemst í návígi við. Rögnvaldur man nefnilega vel þegar hvítabjörn gekk á land sumarið 1971 þó að hann hefði sjálfur ekki séð hann. „Þá var mikill hafís og björninn gekk á land við Ásbúðir sem er næsti bær við okkar. Hann rölti vestur með sjónum að næsta bæ og þar upp með túninu, kom aftur að Ásbúðum og fór þá upp á ísinn og hefur ekki sést síðan,“ segir Rögnvaldur og tekur fram að það hafi hist þannig á að hafísinn hafi rekið frá landi þá um nóttina og því hafi ekki reynst nauðsynlegt að eiga neitt við þann hvítabjörn.