Samtök með meirihlutavægi innan Samtaka atvinnulífsins (SA) hafa nú þá formlegu stefnu að Íslendingar skuli undirbúa aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Í gær var birt ný stefna Samtaka verslunar og þjónustu, sem hvetja stjórnvöld til að undirbúa viðræður um aðild.
SVÞ standa fyrir 21% af atvinnulífinu og hafa vægi eftir því innan SA, þ.e. tvo í sjö manna framkvæmdastjórn og fjóra í tuttugu manna stjórn. Aðildarsamtök SA eru alls átta og hafa reyndar fæst þeirra tekið jafnskýra afstöðu í Evrópumálum. Stefna Samtaka iðnaðarins (SI) hefur samt lengi verið kunn. Þar telja menn fulla ástæðu til að skoða ESB af alvöru og vilja að hagsmunamat, skilgreining samningsmarkmiða og viðræður fari fram. SI hafa 30% vægi, tvo menn í framkvæmdastjórninni og sex í stjórn. Saman hafa SVÞ og SI því 51%, fjóra af sjö í framkvæmdastjórn og tíu af tuttugu í stjórn.