Réðist á konu og börn hennar

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 8 mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundið, fyrir að ráðast ítrekað á fyrrverandi sambýliskonu sína og tvö börn hennar. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða konunni og börnunum bætur en hann fingurbraut bæði konuna og son hennar.

Í niðustöðu dómsins segir, að maðurinn og konan hafi verið í sambúð um þriggja ára skeið og eigi saman ungan son. Tvö önnur börn konunnar  bjuggu á heimili þeirra og maðurinn og konan bjuggu í sama húsi þegar framangreind brot voru framin.

Þá segir dómurinn ljóst, að um langvarandi ósætti konunnar og mannsins hafi verið að ræða, bæði meðan á sambúð þeirra stóð og eftir að henni lauk, auk þess sem ágreiningur hafi verið með þeim um son þeirra og búskipti eftir að samvistaslit urðu. Verði að telja að háttsemi mannsins sé í beinum tengslum við þennan ágreining þeirra og langvarandi ósætti.

Dómurinn segir, að háttsemi mannsins gagnvart konunni og börnunum og kringumstæður allar hafi verið til þess fallnar að niðurlægja þau og skerða sjálfsmat þeirra eða sjálfsvirðingu.

Auk fangelsisvistar var maðurinn dæmdur til að greiða konunni 300 þúsund krónur í bætur, dóttur konunnar 75 þúsund í bætur og syni hennar 120 þúsund krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert