Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í fréttum Útvarpsins að of snemmt væri að segja til um hvort úrskurður umhverfisráðherra vegna álvers á Bakka tefji framkvæmdir. Brýnt sé að hraða málinu eins og kostur sé.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, úrskurðaði í gær að allar framkvæmdir tengdar hugsanlegu álveri á Bakka við Húsavík skuli fara sameiginlega í umhverfismat.
Geir sagði við Útvarpið, að þessi úrskurður þýði ekki að það eigi að stöðva framkvæmdir á Bakka. Þá sé ekki víst að hann tefji framkvæmdir að ráði. Nú verði allir að leggjast á eitt um að hraða þessu máli og klára umhverfismatið, því það sé ekkert mikilvægara fyrir Íslendinga um þessar mundir en að auka verðmætasköpun í landinu og senda þau boð út í þjóðfélagið og til þeirra sem vilja fjárfesta á Íslandi, að hér sé vel tekið á móti þeim sem hafi slík áform.
Kristján L. Möller, samgönguráðherra, sagðist í samtali við Útvarpið hafa verið fullvissaður um
að úrskurður umhverfisráðherra tefji ekki fyrir framkvæmdum við Bakka.