Viðeyjarsund á mettíma

Heimir sést hér fyrir miðju að loknu sundinu í gær …
Heimir sést hér fyrir miðju að loknu sundinu í gær ásamt aðstoðarafólki sínu. Lengst til hægri á myndinni má sjá Benedikt Hjartarson Ermarsundskappa. mbl.is/Jón Svavarsson

Sundkappinn Heimir Örn Sveinsson lauk Viðeyjarsundi í gær á tímanum 1:08:50 klst. Alls synti Heimir 4,8 km og er því um mettíma að ræða miðað við vegalengd og þá leið sem hann synti.

Heimir synti frá Viðeyjarbryggju inn í Reykjavíkurhöfn að flotbryggjunni við hvalaskoðunarbásana. Hann segir þetta vera leiðina sem Eyjólfur sundkappi synti forðum daga og teljist vera formlegt Viðeyjarsund.

„Þetta er met miðað við vegalengd og þessa leið sem ég synti,“ segir Heimir í samtali við mbl.is.

Hann segir að bein sundlína sé 4,4 km en vegna hliðaröldu, sem hann lenti í, hafi hann á endanum synt 4,8 km. „Ég fór aðeins úr leið, ég var alltaf að leiðrétta stefnuna,“ segir Heimir. Sundið gekk hins vegar vel og Heimir náði að halda góðu skriði á meðan sundinu stóð.

„Ég er tiltölulega sáttur en mig langar til að fara þetta á undir klukkutíma við betri aðstæður, og ég tel mig geta gert það leikandi létt.“

Heimir tekur hins vegar fram að það megi deila um metið þar sem sundleiðin sé ekki formlega viðurkennd. „Vandamálið með þetta sund er að það er ekki búið að festa það almennilega niður. Ég, í samvinnu við sundsambandið og Reykjavíkurborg, vil gera þetta formlegt og festa niður leiðina, þannig að þetta sé á hreinu.“

Bloggsíða Heimis þar sem greint er frá sundinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert