Friðargæsluliðar hætti að bera vopn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, kynnir skýrsluna.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, kynnir skýrsluna. mbl.is/Ómar

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að endurskilgreina verkefni íslenskra friðargæsluliða erlendis. Þeir munu framvegis sinna borgaralegum verkefnum og áhersla lögð á að þeir beri ekki vopn. Hætt verður að manna sjö stöður í Afganistan þar sem friðargæsluliðar bera skotvopn. Íslenska ríkið mun ekki greiða bætur vegna árásarinnar.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra boðaði til í dag til að kynna kynna álitsgerð um árás á íslenska friðargæsluliða í Kabúl í október 2004. Þrír létust í árásinni, ódæðismaðurinn, 11 ára afgönsk stúlka og bandarísk kona. Skýrsluna unnu tveir fyrrverandi hæstaréttardómarar, Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson.

Ingibjörg segir nauðsynlegt að skilgreina betur borgaraleg verkefni friðargæslunnar og að íslenskir friðargæsluliðar eigi að taka að sér borgaraleg verkefni. Nema um sé að ræða sérþjálfaða aðila, s.s. íslenska sérsveitarmenn og starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem eru þjálfaðir til að bera vopn.

Ingibjörg segir að tilgangur skýrslunnar hafi ekki verið að finna sökudólga. Það hafi verið mikilvægt að ljúka málinu með formlegum hætti af hálfu ráðuneytisins.

Hún segir að ekkert hafi bent til annars en að öryggisgæsla í ferðinni hafi verið óaðfinnaleg. Friðargæsluliðar brugðust rétt við í kjölfar árásinnar, segir Ingibjörg.

Þá kemur fram að ekki hafi legið fyrir ákveðnar reglur varðandi ferðir friðargæsluliða frá flugvellinum.

Þá kemur jafnframt fram að yfirmaður öryggismála á vettvangi hafi talið ferð friðargæsluliðanna óráðlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka