Sigurbjörn Einarsson biskup látinn

Sigurbjörn Einarsson biskup
Sigurbjörn Einarsson biskup mbl.is/Rax

Sig­ur­björn Ein­ars­son, bisk­up, lést á Land­spít­al­an­um í morg­un, 97 ára að aldri. Sig­ur­björn var vígður sem bisk­up yfir Íslandi árið 1959, þá 47 ára að aldri og gegndi embætt­inu til árs­ins 1981.

Sig­ur­björn lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík árið 1931 og nam al­menn trú­ar­bragðavís­indi, klass­ísk forn­fræði og sögu við Upp­sala­há­skóla. Hann lauk þaðan prófi í grísku, forn­fræðum og sögu árið 1936 og hlaut cand. fil. gráðu frá heim­speki­deild Stokk­hólms­háskóla árið 1937. Kandí­dats­prófi í guðfræði lauk hann frá Há­skóla Íslands árið eft­ir. Sig­ur­björn stundaði fram­halds­nám í nýja-testa­ment­is­fræðum við Upp­sala­há­skóla 1939, í trú­fræði við Há­skól­ann í Cambridge sum­arið 1945 og fram­halds­nám vet­ur­inn 1947-48, meðal ann­ars í Basel.

Séra Sig­ur­björn Ein­ars­son var sett­ur sókn­ar­prest­ur í Breiðbólstaðarprestakalli á Skóg­ar­strönd frá 1. sept. 1938 og vígður í sept­em­ber sama ár. Hon­um var veitt Hall­grím­sprestakall í janú­ar 1941 og þjónaði þar til 1944 þegar hann var skipaður dós­ent í guðfræði við Há­skóla Íslands þar sem hann hafði verið sett­ur kenn­ari. Hann var skipaður pró­fess­or í guðfræði 1949 og gegndi því starfi til 1959 er hann var vígður bisk­up Íslands. Hann þjónaði sem bisk­up Íslands til árs­ins 1981.

Er Sig­ur­björn lét af embætti bisk­ups Íslands sinnti hann marg­vís­leg­um verk­efn­um, kennslu og ritstörf­um. Hann var meðal ann­ars leiðbein­andi á kyrrðar­dög­um í Skál­holti frá upp­hafi þeirra og síðast nú í janú­ar 2008. Sig­ur­björn Ein­ars­son var einn af­kasta­mesti pre­dik­ari sinn­ar samtíðar og sinnti þeirri köll­un sinni til hinstu stund­ar.

Sig­ur­björn Ein­ars­son gegndi fjöl­mörg­um fé­lags-og trúnaðar­störf­um. Hann var meðal ann­ars formaður bóka­gerðar­inn­ar Lilju frá stofn­un 1943 og til 1959, formaður Þjóðvarn­ar­fé­lags Íslend­inga 1946 – 50, formaður Skál­holts­fé­lag­ins frá stofn­un þess 1949. Hann sat í stjórn Hins ís­lenska Biblíu­fé­lags frá 1948 og var for­seti þess 1959 – 81, for­seti Kirkjuráðs og Kirkjuþings 1959-81 og sat í stjórn Nordiska Ek­u­meniska Institu­tet 1959 – 81. Sig­ur­björn var formaður sálma­bók­ar­nefnd­ar 1962-72, formaður þýðing­ar­nefnd­ar Nýja testa­ment­is­ins 1962-81 og sat í nefnd á veg­um Lút­erska heims­sam­bands­ins um trú­ariðkun og trú­ar­líf 1964-68. Hann var formaður List­vina­fé­lags Hall­gríms­kirkju 1982-87 og Skóla­nefnd­ar Skál­holts­skóla 1972-81.

Sig­ur­björn Ein­ars­son var kjör­inn heiðurs­doktor í guðfræði við Há­skóla Íslands 1961 og Há­skól­ann í Winnipeg 1975. Hann var heiðurs­fé­lagi Presta­fé­lags Íslands 1978, Fé­lags ís­lenskra rit­höf­unda 1981, Hins ís­lenska Biblíu­fé­lags 1982 og Presta­fé­lags Suður­lands 1987.

Sig­ur­björn bisk­up var af­kasta­mik­ill á ritvell­in­um, bæði á sviði fræðibóka, þýðinga, trú­ar­rita og sálma. Af fjöl­mörg­um rit­um hans má nefna Trú­ar­brögð mann­kyns, Op­in­ber­un Jó­hann­es­ar - skýr­ing­ar, ævi­sögu Al­berts Schweitzer og kennslu­rit um trú­ar­bragðasögu og trú­ar­lífs­sál­fræði. Hann gaf út fjölda bóka með grein­um, pre­dik­un­um og hug­vekj­um og má þar nefna bæk­urn­ar Meðan þín náð, Helg­ar og hátíðir, Coram Deo, Haust­dreif­ar, Kon­ur og Krist­ur, Sárið og perl­an og Orð kross­ins við alda­hvörf. Hann samdi og þýddi fjölda sálma í Sálma­bók kirkj­unn­ar.

Sig­ur­björn kvænt­ist árið 1933 Magneu Þor­kels­dótt­ur. Hún lést 10. apríl 2006. Börn þeirra eru: Gíslrún, kenn­ari, Rann­veig, hjúkr­un­ar­fræðing­ur, Þorkell, tón­skáld, Árni Berg­ur, sókn­ar­prest­ur, d. 2005, Ein­ar, pró­fess­or við HÍ, Karl, bisk­up Íslands, Björn, sókn­ar­prest­ur í Dan­mörku, d. 2003, Gunn­ar, hag­fræðing­ur, bú­sett­ur í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert