Palestínska flóttafólkið var brosmilt við komuna til Íslands seint í gærkvöldi. Þreytu mátti sjá á því eftir langt ferðalag en greinilega ánægju. Fulltrúar úr stuðningsfjölskyldum þess á Akranesi voru þangað komnir til að taka á móti því.
Ferðinni var heitið beint á Akranes þar sem fjölskyldurnar biðu fólksins á nýjum heimilum þess, sem hafa verið undirbúin af kappi síðustu vikurnar. Flóttafólkið lenti í Keflavík á tólfta tímanum eftir flug frá Al-Waleed flóttamannabúðunum í Írak, með viðkomu í London. Anna Lára Steindal hjá Rauða krossinum fylgdi því heim og sagði við heimkomuna að þetta væri frábær hópur af fólki, þau væru öll mjög hugrökk.
„Enginn gerir það að gamni sínu að rífa sig upp frá heimkynnum sínum og fara á jafnframandi stað,“ segir Anna Lára. Fólkið hafi verið mjög áhugasamt á leiðinni og spurt óteljandi spurninga um hin nýju heimkynni sín. Anna Lára segir börnin í hópnum hafa verið ótrúlega róleg miðað við að ferðin hafi tekið 26 klukkustundir.
Að sögn Sólveigar Ólafsdóttur, sviðsstjóra hjá Rauða krossi Íslands, er dagskrá næstu daga nokkuð stíf. Fólkið fær þó tíma til að jafna sig enda ljóst að viðbrigðin eru mikil.
„Þau þurfa að fylla út gífurlegt pappírsflóð til að ganga frá dvalarleyfi og fleiri praktískum hlutum sem ekki var hægt að gera fyrirfram. Svo er það læknisskoðun og ráðgjöf frá félagsþjónustu, sem fer í gang þessa fyrstu daga auk þess sem stuðningsfjölskyldurnar hjálpa þeim að átta sig á sínu nánasta umhverfi,“ segir Sólveig.