Upplýsingaskilti um andarnefjur við Pollinn

Andarnefjurnar hafa leikið listir sínar á Pollinum undanfarnar vikur, Akureyringum …
Andarnefjurnar hafa leikið listir sínar á Pollinum undanfarnar vikur, Akureyringum og öðrum til ómældrar ánægju. mbl.is/Hörður Geirsson

Sett hafa verið upp tvö skilti við Pollinn á Akureyri þar sem er að finna almennar upplýsingar, bæði á ensku og íslensku, um hvalategundina andarnefjur.  Tvær andarnefjur glatt Akureyringa og gesti bæjarins með veru sinni í Pollinum síðustu vikurnar og vona bæjarbúar að þær sýni ekki á sér fararsnið á næstunni.

Skiltin voru sett upp að frumkvæði Akureyrarstofu í samvinnu við Hvalasafnið á Húsavík. Á þeim segir um andarnefjur:

Andarnefja er allstór tannhvalur sem heldur sig mest fjarri landi þó raunar megi stundum finna hann nærri landi. Hún veiðir yfirleitt ein og lifir á fiski, sæbjúgum, krossfiskum en aðallega á smokkfiski. Andarnefja er einn besti kafarinn af hvölunum og getur kafað niður á 1000 metra dýpi og verið í kafi í allt að klukkustund.

Andarnefjur finnast umhverfis Ísland á sumrin, oftast á rúmsjó utan landgrunnsins. Við kelfingu er kálfurinn um 3 m á lengd, en fullorðinn tarfur getur orðið um 10 m langur og nær 10 tonn að þyngd. Andarnefjur geta orðið 40–60 ára gamlar. Andarnefjur eru mjög félagslyndar. Þær ferðast saman í litlum hópum, sýna skipaferðum mikinn áhuga og eru mjög spakar.

Andarnefjutarfar hafa aðeins tvær tennur sem vaxa fremst í neðri kjálka og verða aðeins sýnilegar þegar dýrin eru að verða fullvaxta, kýrnar hafa ekki neinar sýnilegar tennur. Þær opna munnin snögglega og soga fæðuna upp í munninn og kyngja henni síðan í heilu lagi.

Á fyrri hluta 20. aldar var andarnefja mikið veidd kringum Ísland og mjög eftirsótt af hvalveiðimönnum en erlendir hvalfangarar veiddu tugi þúsunda af andarnefju á Íslandsmiðum á síðustu hundrað árum. Andarnefja hefur verið friðuð síðan 1977 og fer nú fjölgandi jafnvel þó Norðmenn hafi veitt þessa tegund í litlum mæli. Olía var unnin úr andarnefju sem var mjög eftirsótt en nú hafa tilbúnar olíur leyst hana af hólmi og kom það tegundinni til góða í minni veiðisókn. 

Upplýsingaskiltið fest upp í dag.
Upplýsingaskiltið fest upp í dag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka