Dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn barnabarni

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag tæplega níræðan karlmann í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stúlku, barnabarni mannsins. Maðurinn neitað sök en að mati dómsins var það hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hefði gerst sekur um brotin, sem voru framin á árunum 1994-2005, þegar stúlkan var á aldrinum 4 til 15 ára.

Málið kom á borð lögreglu með kæru félagsmálastjóra í bæjarfélaginu þar sem stúlkan býr. Þar segir að hún hafi orðið fyrir kynferðisbrotum af hendi afa síns frá því hún muni eftir sér í leikskóla og til 15 ára aldurs. Brotin urðu alvarlegri eftir því sem stúlkan varð eldri.

 Daginn eftir að kæran barst lagði frænka stúlkunnar, sem einnig er barnabarns mannsins, fram kæru á hendur afa sínum og lýsti svipuðum brotum af hans hálfu. Jafnframt sagði hún að afi hennar hefði sagt að það þýddi ekkert að kæra þar sem enginn myndi trúa henni hvort sem er og hann hefði hótað henni einhverju ef hún myndi kjafta frá. Málið sem leiddi af kæru frænkunnar var síðar fellt niður þar sem brotin voru talin fyrnd.

 Maðurinn neitaði alfarið sakargiftum og benti á, sér til varnar, að hann hefði orðið getulaus vegna sjúkdóms fyrir sextugt. Dómurinn sagði þennan framburð ekki eiga sér stoð í sjúkragögnum.

Í niðurstöðum dómsins segir að framburður fjölmargra vitna styðji frásögn stúlkunnar. Þannig hafi móðir hennar sagt að stúlkan hafi forðast afa sinn eftir að amma hennar lést og faðir hennar skýrði frá því að það hefði rifjast upp fyrir honum að að hafa orðið vitni að óeðlilegri háttsemi mannsins gagnvart öðru barnabarni sínu í sumarbústað fyrir mörgum árum. Vinkonur stúlkunnar greindu einnig frá því að stúlkan hefði sagt þeim frá misnotkuninni.

Þar að auki taldi dómurinn að ekki yrði litið fram hjá framburði frænku stúlkunnar sem einnig kveðst hafa orðið fyrir kynferðisbrotum mannsins.

Maðurinn var því dæmdur fyrir þau kynferðisbrot gegn stúlkunni sem honum var gefin að sök; „kynferðisbrot með því að hafa í fjölmörg skipti snert á henni kynfærin, farið með fingur í leggöng hennar, látið hana fróa sér og í nokkur skipti látið hana hafa við sig munnmök.“

Árið 2007 voru refsingar fyrir kynferðisbrot gegn börnum þyngdar en þar sem brotin voru framin fyrir þann tíma hefur sú lagabreyting ekki áhrif á refsiþyngdina í þessu máli.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot mannsins voru alvarleg og beindust gegn barnabarni hans nánast alla hennar æsku, eða allt frá því hún var fjögurra ára og til fimmtán ára aldurs. Með brotum ákærða brást hann trúnaðarskyldum sínum gagnvart henni og hann rauf fjölskyldutengsl, segir í dómnum. Á hinn bóginn var litið til þess að maðurinn er níræður en samkvæmt lögum og dómafordæmum getur hár aldur lækkað refsingu.

Maðurinn var dæmdur til að greiða stúlkunni 1,5 milljónir í bætur og 1,2 milljónir í sakarkostnað.

Sandra Baldvinsdóttir, Finnbogi H. Alexandersson og Þorgeir Ingi Njálsson kváðu upp dóminn. Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari hjá ríkissaksóknara sótti málið en Unnar Steinn Bjarndal hdl. var skipaður verjandi mannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert