Sporna gegn innbrotum og tjóni

Kjalarnes.
Kjalarnes. Loftmyndir

Búið er að setja á laggirnar nágrannavörslu í Grundarhverfi á Kjalarnesi en þetta er í fyrsta skipti sem farið er af stað með slíkt átak í heilu borgarhverfi. Um er að ræða samstarfsverkefni milli íbúa hverfisins, lögreglunnar og Reykjavíkurborgar. Áður hefur nágrannavarsla farið fram í einstökum götum borgarinnar og almennt hefur mikil ánægja verið með það.

Marta Guðjónsdóttir, formaður hverfisráðs Kjalarness, segir verkefnið fyrst og fremst hugsað sem forvörn en lítið sé um innbrot á Kjalarnesi. „Markmiðið með verkefninu er í raun að aðstoða borgarbúa við að stuðla að auknu öryggi og taka höndum saman um að sporna gegn innbrotum og eignatjóni.“

Marta segir að þótt sjálfsprottin nágrannavarsla finnist víða, fari formleg nágrannavarsla þannig fram að í upphafi sé haldinn undirbúningsfundur með íbúum þar sem þeir fái afhenta sérstaka límmiða til að setja í rúður í húsum sínum en á þá hefur verið prentað merki nágrannavörslunnar sem er samræmt um landið allt.

Þá eru sett upp sérstök nágrannavörsluskilti í hverja einustu götu þar sem nágrannavarslan er fyrir hendi. Sérstakir götustjórar eru valdir sem þjóna hlutverki tengiliða lögreglu og íbúa. Hlutverk þeirra er að upplýsa nágranna sína eigi eitthvað óeðlilegt sér stað og upplýsa einnig lögreglu verði þeir varir við grunsamlegar mannaferðir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka