Gæsluvarðhald staðfest yfir hústökufólki

Lögreglustöðin á Akureyri
Lögreglustöðin á Akureyri mbl.is/Margrét Þóra

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni á fertugsaldri og tvítugri stúlku vegna gruns um innbrot í húsnæði á Akureyri. Grunur leikur á að fólkið hafi haldið til í húsnæðinu í einhvern tíma. Þeim hefur verið vísað úr verslunum í bænum vegna gruns um þjófnaði. Þau sæta varðhaldi til morgundagsins.

Í greinargerð lögreglustjórans á Akureyri kemur fram að fólkið sé grunað um að hafa brotist inn í sumarbústaði og tekið fjórhjól ófrjálsri hendi auk þess sem nokkuð magn af DVD myndum hafi fundist í fórum þeirra. Í kröfu lögreglustjórans er tekið fram að fólkið hafi dvalið í umdæminu í 4-5 vikur án þess að hafa samastað og án atvinnu. Hætta er talin á að þau yfirgefi landið áður en rannsókn lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert