„Þetta gerist varla betra,“ segir ofurhlauparinn Gunnlaugur Júlíusson sem áðan lauk 246 km Spartathlonhlaupi í Grikklandi. Gunnlaugur hafnaði í 74. sæti en hann hljóp á rúmum 34 klukkustundum og 12 mínútum. Tímamörkin voru 36 klukkustundir.
Aðspurður segist Gunnlaugur ekki vita hvort hann taki aftur þátt í Spartathloni. „Það er ekkert sjálfgefið. Það er meira en að segja það að fara í svona hlaup. Það krefst gríðarlegs undirbúnings og kostnaðar og er allsendis óvíst hvort maður komist í mark,“ segir hann en tölfræðin sýnir að aðeins um þriðjungur þeirra sem hefur hlaupið nær að ljúka því. Hann segir marga öfluga hlaupara hafa dottið úr keppni í dag, þ.á m. 2 af verðlaunahöfunum frá því í fyrra.
Gunnlaugur segist ekki farinn að hugsa um hvað taki við næst hjá honum. „Það er ekkert sem toppar þetta,“ segir hann og gefur fyrir því tvær ástæður. Annars vegar veit hann ekki um neitt lengra hlaup í heiminum sem er frá einum stað til annars og þá eru tímamörkin afar erfið. „Pressan er svo mikil á hlauparann. Ég held að hlaupið vinnist oft á 60% af hámarkstímanum þegar algengt er að hlaup vinnist á 40% hámarkstímans.“ Þá bætir Gunnlaugur við að landslagið hafi verið afar erfitt yfirferðar.