Prins þjófanna fremstur meðal jafningja

Eigandinn Guðný Vala Tryggvadóttir er ánægð með hvutta, sem var …
Eigandinn Guðný Vala Tryggvadóttir er ánægð með hvutta, sem var valinn besti hundur sýningarinnar í ar.

Alþjóðleg hundasýning Hundaræktarfélags Íslands, HRFÍ, var haldin nú um helgina. 750 hundar af 86 tegundum voru skráðir til leiks auk 38 ungra sýnenda. Besti hundur sýningarinnar var st. bernharðsrakkinn Bernegården´s Prince Of Thieves. Eigandi hans er Guðný Vala Tryggvadóttir.

Besti öldungur sýningar var Tíbráar Tinda-Tamino, sem er tíbetskur spaniel í eigu Sigurgeirs Jónssonar og Auðar Valgeirsdóttur.

Besti hvolpur dagsins í yngri flokki á laugardegi var labrador retriever, Stekkjardals Cariad for the One, sem er í eigu Gunnars Arnar Rúnarssonar. Í eldri flokki varð Rökkur Red Topaz hlutskarpastur. Hann er af tegundinni miniature pinscher og er í eigu Guðjóns Ármanns Halldórssonar.

Á sunnudegi sigraði shih tzu rakkinn Gullroða Gratton yngri hvolpaflokk en eigandi hans er Stella Bragadóttir. Besti hvolpur í eldri flokki var hins vegar tíkin Halastjörnu Brynfríður Borubratta hlutskörpust, griffon bruxellois í eigu Brynju Tomer.

Þar sem sýningin var síðasta sýning HRFÍ á árinu var stigahæsti hundur verðlaunaður. Sá hundur sem hlaut flest stig þetta árið var st. bernharðshundurinn sem var valinn besti hundur sýningarinnar  en stigahæsti öldungurinn var japanskur chin, alþjóðlegi og íslenski meistarinn Homerbrent Kokuo. Hann er í eigu Guðríðar Vestars.

Sýningin stóð frá föstudagskvöldi og fram á sunnudag og dæmdu sex dómarar frá fjórum löndum, Ísrael, Mexíkó, Svíþjóð og Finnlandi í fimm sýningarhringjum samtímis.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka