Neyðarlög sett í dag

Geir H. Haarde fer yfir ávarp sitt ásamt Grétu Ingþórsdóttur, …
Geir H. Haarde fer yfir ávarp sitt ásamt Grétu Ingþórsdóttur, aðstoðarmanns síns. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í sjónvarpsávarpi, að staða íslensku bankanna væri mjög alvarleg og hefði versnað til muna í morgun. Geir mun mæla fyrir frumvarpi á Alþingi um mjög víðtækar heimildir til Fjármálaeftirlitsins til að grípa inn í fjármálastarfsemi og endurskipuleggja hana.

Geir vísaði til þess í ávarpi sínu að nokkrir af stærstu fjárfestingabönkum heims hafa orðið kreppunni að bráð og lausafé á mörkuðum í raun og veru þurrkast upp. Þetta hefur haft þau áhrif að stórir alþjóðlegir bankar hafa kippt að sér höndum við fjármögnun annarra banka og algjört vantraust hefur skapast í viðskiptum banka á milli. Af þessum völdum hefur staða íslensku bankanna versnað mjög hratt á allra síðustu dögum.

Geir sagði að í gærkvöldi hefði verið útlit fyrir að bankarnir gætu fleytt sér áfram. Þessi staða hefði gerbreyst til hins verra í dag og stórar lánalínur hefðu lokast. Nú reyni á ábyrg og fumlaus viðbrögð. „Ég mun nú á eftir mæla fyrir frumvarpi á Alþingi sem mun gera ríkissjóði kleift að bregðast við því ástandi sem nú er á fjármálamörkuðum. Ég hef rætt við forystu stjórnarandstöðunnar í dag og fengið góð orð um að frumvarpið verði afgreitt í dag."

Hann sagði að ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu unnið baki brotnu að lausn og allt kapp hefði verið lagt á að íslensku bankarnir seldu eignir sínar svo íslenska ríkið hafi bolmagn til að styðja við bakið á þeim.

Hins vegar fælist mikil áhætta í því fyrir þjóðina alla, að tryggja bönkunum líflínu. Sú hætta væri raunveruleg, að íslenska þjóðarbúið myndi sogast með bönkunum inn í brimrótið og úr yrði þjóðargjaldþrot. „Engin ábyrg ríkisstjórn teflir í slíka tvísýnu þótt bankakerfið eigi í hlut. Íslenska þjóðin og hagsmunir hennar ganga framar öllum öðrum hagsmunum," sagði Geir. 

 Verkefni stjórnvalda á næstu dögum er skýrt: að koma í veg fyrir að upplausnarástand skapist, ef íslensku bankarnir verða óstarfhæfir að einhverju marki, sagði Geir. „Til þess hafa stjórnvöld margvísleg úrræði og þeim verður beitt. Á hinum pólitíska vettvangi, jafnt sem annars staðar, er mikilvægt að slíðra sverðin við þessar aðstæður.

Miklu skiptir að við sýnum bæði stillingu og yfirvegun þá erfiðu daga sem nú fara í hönd, látum ekki hugfallast og styðjum hvert annað með ráðum og dáð. Á þann hátt, með íslenska bjartsýni, æðruleysi og samstöðu að vopni, munum við standa storminn af okkur."

Ávarp forsætisráðherra í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka