Brown gekk allt of langt

Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðsson hafa haldið blaðamannafundi …
Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðsson hafa haldið blaðamannafundi undanfarna daga. mbl.is/Brynjar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi, að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hefði gengið allt of langt í ummælum sínum um Ísland í gær, m.a. um að Ísland væri gjaldþrota. Geir fékk bréf frá Brown í dag þar sem hann lætur í ljós von um að deilan um íslenska bankareikninga í Bretlandi leysist.  

Geir sagðist hafa ákveðið í gærkvöldi að svara ekki í fjölmiðlum ummælum Browns þar sem hann grunaði að breski forsætisráðherrann hefði ekki haft upplýsingar um samtal Geirs og Alistairs Darling í gærmorgun. Mikilvægt væri að þessi mál kæmust af yfirlýsingastigi.

Von er á sérfræðingum frá breska fjármálaráðuneytinu, fjármálaeftirlitinu, Englandsbanka og tryggingarsjóði inneigna í Bretlandi. Munu þeir eiga fundi með íslenskum embættismönnum á morgun. Einnig er von á sérfræðingum frá Hollandi sömu erindagerða. 

Geir ítrekaði, að enginn íslenskur ráðamaður hefði haldið því fram að Íslendingar muni ekki standa við skuldbindingar sínar. Ef það sé mat breskra stjórnvalda að eðlilegt sé að fara með mál fyrir dómstóla sé það sjálfsagt. Með sama hætti muni Íslendingar áskilja sér einnig að leita réttar síns ef í ljós kemur að bresk stjórnvöld hafi með orðum sínum og gerðum valdi tjóni á íslenskum fyrirtækjum.

Geir sagði að Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, hefði hringt í sig í dag og þar hefði komið fram að Norðmenn væru langt komnir með að leysa vandamál varðandi íslenska innlánsreikninga. Sagði Geir til fyrirmyndar hvernig Norðmenn hefðu tekið á þessum málum.

Fram kom hjá Geir, að Stoltenberg  hefði nefnt að möguleikar væru á að gjaldeyrisskiptasamningur, sem seðlabankar landanna gerðu, yrði hækkaður. Geir sagði hins vegar of snemmt að fjalla um slíkt. 

Þá sagði Geir að viðskipti milli landa hefðu í aðalatriðum gengið vel fyrir sig í dag þótt tafir hafa orðið í greiðslumiðlun. Seðlabankinn sé með sérstaka vakt á gjaldeyrisborði til að tryggja að þetta geti gengið vel fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert